Mikill troðningur er skelfing greip um sig

Vitni árásarinnar í Barcelona lýsa skelfingu og troðningi á götum …
Vitni árásarinnar í Barcelona lýsa skelfingu og troðningi á götum borgarinnar. AFP

Vitni árásarinnar þar sem sendiferðabíl var ekið á hóp fólks á Römblunni í Barcelona í dag lýsir því hvernig skelfing greip um sig og troðningur varð á götum í nágrenninu þegar lögregla hrópaði á fólk að koma sér í burtu. 

Tom Markwell frá New Orleans í Bandaríkjunum var rétt kominn á Römbluna þegar hann heyrði öskur frá hópi fólks. „Það hljómaði eins og þau væru að fagna kvikmyndastjörnu,“ sagði hann í viðtali við BBC. „Ég sá sendiferðabílinn. Hann sveigði til vinstri og hægri og reyndi að keyra á fólk eins hratt og hægt var. Fólk lá á götunni.“  

Lögreglan fljót á staðinn

Annað vitni, Aamer Anwar, var á gangi niður Römbluna sem hann sagði vera fulla af ferðamönnum. „Skyndilega heyrði ég brothljóð og allt fólkið í götunni byrjaði að hlaupa, öskrandi. Kona við hliðina á mér kallaði á börnin sín,“ sagði hann við Sky fréttastofuna.

„Lögreglan var mjög, mjög fljót á staðinn, lögregluþjónar með byssur, kylfur, allstaðar,“ sagði hann. „Lögreglumennirnir sem komu á staðinn fóru strax að kalla á fólk að færa sig til baka.“

Marc Esparcia, tvítugur nemi sem býr í Barcelona, sagði við BBC fréttastofuna að hann hafi heyrt hátt hljóð og fólk hlaupandi í leit að skjóli. „Það var mikið af fólki, mikið af fjölskyldum [á svæðinu], þetta er eitt af fjölsóttustu stöðunum í Barcelona.“

Troðningur á götum úti 

Ethan Spidey var á leiðinni á Römbluna með kærastanum sínum þegar atvikið átti sér stað. Hann lýsti því hvernig  troðningur varð á götunum og lögregla sagði fólki að hlaupa.

„Ég sá lítið barn detta og tók það upp en fólk bara hljóp.“

„Það varð troðningur á götunum við Römbluna þar sem allir reyndu að hlaupa í burtu. Fólk hljóp inn í búðir og kaffihús. Það var mikið öskrað,“ sagði hann í viðtali við The Independent.

„Fólk tók af stað og hljóp í öfuga átt þegar lögreglan hrópaði á fólk að hlaupa í burtu. Þau sögðu fólki að koma sér í burtu eins fljótt og hægt væri. Þetta var skelfilegt.“

Fólk kallaði á hjálp 

Annað vitni sem var á veitingastað í nágrenninu var við það að yfirgefa staðinn þegar það varð uppþot og gestir staðarins flýttu sér úr sætunum.

„Þá sá ég fólk hlaupa í austurátt veitingastaðarins og sá nokkra einstaklinga grúfa sig yfir því sem virtist vera einstaklingur liggjandi á jörðinni og kölluðu á hjálp. „

AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert