Óttaðist að árásarmaður væri í búðinni

Skelfing greip um sig í verslun í grennd við árásina …
Skelfing greip um sig í verslun í grennd við árásina í Barcelona. „Fólk horfði út í gengum gluggann og hefur þá væntanlega verið að horfa á þegar að árásarmaðurinn keyrir í hóp fólks,“ segir Sigrún K. Valsdóttir sem var stödd í versluninni fyrr í dag. AFP

Sigrún K. Valsdóttir var stödd í verslun við hliðina á þeim stað þar sem hryðjuverkaárás var gerð í miðborg Barcelona í dag. Hún vissi ekki hvað hafði gerst þegar skelfing greip um sig og átti jafnvel von á því að árásarmaður væri inni í búðinni.

Sigrún sagði í samtali við mbl.is að enginn hafi vitað hvað væri í gangi þegar versluninni, sem er inni í verslunarmiðstöð, var skyndilega lokað.

„Ég er á neðri hæð búðarinnar þegar ég heyri öskur og mikil ofsahræðsla greip um sig meðal gesta verslunarinnar,“ segir hún og bætir við: „fólk hljóp út um allt og aðrir niður og aðrir grátandi.“

Hún faldi sig ásamt fleiri gestum á bakvið borð. Enginn vissi hvað væri að gerast eða hvers konar árás hefði átt sér stað. Versluninni var lokað um dágóðan tíma en þegar hún komst út gekk hún rakleiðis heim til sín. „Maður var hræddur um að þetta væri kannski ekki einangrað atvik.“

„Svakalega mikið kaos“

„Þegar búðin opnaði aftur þá bara hljóp fólk í burtu. Þegar ég kom út var svakalega mikið kaos,“ segir Sigrún en fólki var meinað að fara niður á Römbluna heldur aðeins í öfuga átt út úr miðbænum.

Sigrún vissi ekki hvað hafði gerst fyrr en hún var komin út úr versluninni. „Ég hringdi í manninn minn og sagði honum að ég vissi ekki hvað var í gangi. Þá var ekkert komið í fjölmiðla heldur, heldur var þetta bara að gerast.“

Í fyrstu hafi hún verið hrædd um að verið væri að ráðast inn í búðina. „Ég var mjög hrædd þegar ég sá viðbrögð annarra og miðað við hvernig árásir hafa verið í Evrópu hingað til þá var ég mjög hrædd um einhver væri að koma niður, eða inn í verslunina þegar allir hlupu í burtu,“ segir hún.

Horfðu á þegar árásarmaðurinn keyrði á hóp fólks

Þrátt fyrir að versluninni hafi verið lokað þegar atvikið átti sér stað greip um sig mikil örvænting. „Fólk horfði út í gegnum gluggann og hefur þá væntanlega verið að horfa á þegar að árásarmaðurinn keyrir á hóp fólks.“

Hún lýsir því hvernig allt lokaði skyndilega og fólk leitaði skjóls inni í verslunum og á veitingastöðum.

„Þegar ég gekk í burtu var mikil hræðsla, fólk að labba í allar áttir og mikil sundrung en ég talaði við vin minn áðan og þá sagði hann að fólk væri rólegt, flestir að fara úr miðbænum eins og yfirvöld höfðu verið að mælast til, að fólk færi af svæðinu,“ segir hún.

Sigrún lýsir því hvernig búðir og veitingastaðir lokuðu skyndilega.
Sigrún lýsir því hvernig búðir og veitingastaðir lokuðu skyndilega. AFP
Fjöldi fólks hefur leitað skjóls inni í verslunum og á …
Fjöldi fólks hefur leitað skjóls inni í verslunum og á veitingastöðum. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert