17 ára talinn vera ökumaður bílsins

Mynd/Skjáskot Twitter

Lögreglan í Katalóníu á Spáni leitar nú að hinum 17 ára gamla Moussa Oukabir, sem talinn er vera ökumaður sendiferðabílsins sem ekið var á hóp fólks á Römblunni í Barcelona í gær með þeim afleiðingum að 13 manns létust og yfir 100 særðust. Talið er að hann hafi flúið af vettvangi í öðrum bíl. BBC greinir frá og hefur upplýsingarnar frá spænskum miðlum.

Er hann bróðir Driss Oukabir sem handtekinn var í gær, grunaður um aðild að hryðjuverkaárásinni, en skilríki þess síðarnefnda voru notuð til að leigja sendiferðabílinn.

Gæti stafað hætta af honum

Carles Puigdemont, forseti Katalóníu, varaði við því í útvarpsviðtali í morgun að grunaður hryðjuverkamaður hefði komist undan eftir hryðjuverkaárásina og á meðan hann væri á flótta gæti enn stafað hætta af honum.

Forsetinn var spurður í viðtalinu hvort meintur hryðjuverkamaður gengi enn laus og hvort hann væri hættulegur. „Hann er á flótta, já, en hvort hann er fær um að skaða aðra vitum við ekki akkúrat núna,“ svaraði hann.

Forsetinn varaði þó við því að „svona fólk hefði sýnt fram á að það hefði vilja til að skaða aðra, hvað sem það kostaði“. AFP-fréttastofan greinir frá.

Hluti af 12 manna hópi

Spænska lögreglan kom seint í gærkvöldi í veg fyrir aðra hryðjuverkaárás í bæn­um Cambrils, um 100 km suður af Barcelona. Þar voru fimm meint­ir hryðju­verka­menn skotn­ir til bana, en þeir voru í sendi­ferðabíl sem ók á gang­andi veg­far­end­ur í bæn­um með þeim af­leiðing­um að einn lést og sjö særðust.

Árásarmennirnir á Römblunni í gær eru taldir hafa ætlað sér að nota einhvers konar gassprengjur í árásinni til að valda enn meiri skaða, en talið er að árásirnar í Bar­celona og Cambrils tengist spreng­ingu sem varð í húsi í bæn­um Alcan­ar á miðviku­dag. Einn lést í þeirri sprengingu, en að sögn lög­reglu­stjór­ans, Joseps Llu­is Tra­peros, virðist sem íbú­ar húss­ins hafi verið að út­búa gassprengj­ur.

Yfirvöld í Katalóníu segja það nú í forgangi að bera kennsl á árásarmennina og sýna fram á tengsl þeirra þriggja sem handteknir hafa verið, þeirra sem felldir hafa verið og þeirra sem komust undan. Talið er að þeir séu hluti af 12 manna hópi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert