Bruno og Elke fyrstu fórnarlömb árásarinnar

Bruno Gulotta lést er flutningabíl var ekið á hann á …
Bruno Gulotta lést er flutningabíl var ekið á hann á Römblunni í Barcelona.

Fyrsta fórnarlamb árásarinnar í Barcelona í gær sem búið er að nafngreina er hinn ítalski Bruno Gulotta, sem var í fríi í Barcelona ásamt konu sinni og tveimur börnum. 

Þá hækkaði tala látinna í dag upp í 14 að sögn spænskra yfirvalda, eftir að eitt fórnarlamb árásarinnar í Cambrils lést á sjúkrahúsi í morgun. 13 létust í árásinni í Barcelona í gær og yfir 100 manns særðust þegar flutningabíl var ekið á gangandi vegfarendur á Römblunni í Barcelona í gær.

Belgísk yfirvöld hafa greint frá því að belgísk kona Elke Vanbockrijck, frá bænum Tongeren hafi einnig látist. Belgískir fjölmiðlar segja Vanbockrijck, sem var 44 ára, hafa verið í fríi í Barcelona með eiginmanni sínum og sonum. 

Gulotta starfaði hjá tölvufyrirtækinu Tom‘s Hardware og er greint frá láti hans á Facebook síðu þeirra nú í morgun.

Í frétt Daily Telegraph segir að Gulotta hafi verið einn af þeim sem flutningabíllinn ók á. Hann var þá á gangi á Römblunni og hélt í hönd fimm ára sonar síns. Eiginkona hans Martina Gulotta er sögð rétt hafa náð að grípa í strákinn rétt áður en hann dróst með.

Ítalska dagblaðið La Repubblica segir Martinu hafa gengið fyrir aftan þá feðga með sjö mánaða dóttur þeirra, Ariu í poka framan á sér, þegar bíllinn keyrði á Gulotta. Hún greip þá í Alessandro son þeirra og flýtti sér að koma börnunum í öruggt skjól.

Gulotta, sem var 35 ára gamall, lést samstundis.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert