Fjórir hryðjuverkamenn nafngreindir

AFP

Spænska lögreglan birti í dag nöfn þriggja karlmanna frá Marokkó sem grunaðir eru um hryðjuverkin sem framin voru í landinu í gær og síðastliðna nótt og eins spænsks ríkisborgara. Þrír mannanna voru skotnir til bana af spænskum öryggissveitum í bænum Cambrils.

Mennirnir hétu Moussa Oukabir sem var 17 ára, Said Aallaa sem var 18 ára og Mohamed Hychami sem var 24 ára þegar hann lést. Lögreglan upplýsti ennfremur að hún leitaði að fjórða hryðjuverkamanninum sem var nafngreindur í dag. Hann heitir Younes Abouyaaqoub er 22 ára gamall samkvæmt frétt AFP.

Lögreglan telur að í hópurinn sem stóð fyrir hryðjuverkunum hafi talið tólf manns. Fimm hafa verið skotnir til bana, fjórir eru í haldi lögreglunnar en þriggja er enn leitað. Þetta upplýsti lögregluforinginn Josep Lluis Trapero í sjónvarpsviðtali í kvöld.

Talið var áður að Moussa Oukabir gengi laus en lögreglan telur að hann hafi ekið sendiferðabifreið á gangandi vegfarendur í Barcelona með þeim afleiðingum að 13 létust og yfir eitt hundrað særðust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert