Vissi aðeins að hún hét Kim

Peter Madsen ræðir við lögreglumann eftir að hann kom til …
Peter Madsen ræðir við lögreglumann eftir að hann kom til Dragoer-hafnar á föstudagsmorguninn. AFP

Þegar Peter Madsen, eigandi kafbátsins Nautilus, kom til hafnar eftir að hafa verið bjargað frá sökkvandi bátnum, sagðist hann ekki vita mikið um blaðakonuna sem var með honum um borð. „Aðeins að hún heitir Kim,“ sagði hann við lögreglumann á vettvangi. „Ég kanna ekki bakgrunn blaðamanna sem hringja og spyrja hvort þeir geti fengið viðtal við mig.“

Madsen bætti við að hann hefði upplýsingar um hana, en þær væru í símanum sínum sem lægi nú á hafsbotni.

Fyrstu skýringar sem Madsen gaf á hvarfi sænsku blaðakonunnar Kim Wall voru þær að hann hefði sett hana í land nokkrum tímum eftir að þau lögðu saman úr höfn í Kaupmannahöfn á Nautilus. Hann hefur síðan breytt þeim framburði sínum en þar sem lögreglan í Kaupmannahöfn, sem fer með rannsókn málsins, gefur ekkert út um gang rannsóknarinnar, er ekki vitað hverjar skýringar Madsen eru nú.

Madsen var fyrir viku úrskurðaður í gæsluvarðhald til 5. september. Hann er grunaður um manndráp. Í vikunni gaf lögreglan út yfirlýsingu þar sem fram kom að hún teldi Wall af. Að nú væri leitað líks í sjónum úti fyrir Danmörku.

„Við höfum gert ítarlega rannsókn sem ég get ekki farið meira út í en okkur vantar enn lík í málinu,“ sagði í yfirlýsingu lögreglunnar. „Það er okkar trú að við leitum nú að látinni manneskju.“

Frétt BT.dk um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert