Ljóðelskur Kínverji kaupir Southampton

Jisheng Gao er núna 80% eigandi í enska liðinu Southampton.
Jisheng Gao er núna 80% eigandi í enska liðinu Southampton. AFP

Nýr meirihlutaeigandi enska knattspyrnuliðsins Southampton, kínverski auðjöfurinn Jisheng Gao, var eitt sinn bóndi, lögreglumaður og lítur á sjálfan sig sem ljóðskáld. Forráðamenn annarra félaga í úrvalsdeildinni hafa lýst yfir áhyggjum af tengslum hans við rannsóknir á spillingarmálum í Kína.

Hann keypti 80% hlut í félaginu fyrir um það bil 210 milljónir punda í síðustu viku og bætist þar með í hóp fjölmargra erlendra auðkýfinga sem fjárfesta í enskum knattspyrnufélögum. Talið er að hann hafi keypt félagið fyrir sín persónulegu auðæfi, en fram kemur í tilkynningu um kaupin að dóttir hans, Nelly Gao, muni vinna náið með honum að rekstri félagsins.

Fyrrverandi aðaleigandi Southampton, Katharina Liebherr, heldur eftir 20% hlut í félaginu, en hún erfði félagið af föður sínum árið 2009. Faðir hennar keypti félagið á 14 milljónir punda og fékk 38 milljónir punda lánaðar til rekstursins, svo heildargróði Liebherr er nærri 150 milljónum punda. Hún hefur sannfært stuðningsmenn liðsins um að rekstur félagsins verði með svipuðu horfi, þrátt fyrir að Gao verði aðaleigandi.

St. Mary's er heimavöllur Southampton.
St. Mary's er heimavöllur Southampton. AFP

Auðgaðist á fasteignaviðskiptum

Gao þessi þykir nokkuð sérstakur karakter. Hann lætur lítið fyrir sér fara, en heldur úti heimasíðu þar sem nálgast má upplýsingar um fyrri störf hans. Þar kemur meðal annars fram að hann hafi starfað sem bóndi, blaðamaður og yfirmaður í verksmiðju, auk þess sem þar má nálgast ljóð og ritgerðir eftir hann.

Þá starfaði hann fyrir lögregluna í Sjanghæ frá 1970 til 1977, á róstusömu tímabili í kínverskri sögu, en þá var menningarbylting Maós að líða undir lok.

Í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar fór Gao að stunda fasteignaviðskipti og hefur hann hagnast gríðarlega samhliða hinni miklu uppbyggingu sem hefur átt sér stað í Kína, en fyrirtæki hans, Lander Sports Development, sérhæfir sig meðal annars í því að byggja íþróttaleikvanga.

Gömul spillingarmál vekja upp spurningar

Financial Times fjallaði um kaup Gaos á Southampton og heimildarmaður blaðsins, sem er hátt settur innan enska knattspyrnuheimsins sagði önnur félög í ensku úrvalsdeildinni hafa lýst yfir áhyggjum af því að Gao hafi verið tengdur rannsóknum á spillingarmálum í Kína.

Þrátt fyrir þessar áhyggjur, hefur Gao ekki verið dæmdur fyrir nein lögbrot, að því er fréttaveitan AFP kemst næst.

Kínverjar verða sífellt umsvifameiri í enskri knattspyrnu og Southampton er annað liðið í ensku úrvalsdeildinni sem er í meirihlutaeigu kínverskra fjárfesta, en West Bromwich Albion komst í kínverska eigu í september á síðasta ári.

Þá eiga Kínverjar 13% hlut í Manchester City, auk þess sem félögin Aston Villa, Birmingham, Reading og Wolves, sem leika í næstefstu deild, eru í meirihlutaeigu kínverskra auðmanna.

Forseti Kína, Xi Jinping, kallaði eftir því árið 2015 að Kínverjar létu meira til sín taka í knattspyrnuheiminum og síðan þá hafa kínverskir peningar streymt inn í evrópsk félög í æ meiri mæli. Auk þess er kínverska deildin sífellt að verða sterkari og hafa margir leikmenn fært sig frá toppliðum í Evrópu til Kína, þar sem launin eru ótrúlega há.

Charlie Austin tryggði Southampton sigur gegn West Ham um helgina.
Charlie Austin tryggði Southampton sigur gegn West Ham um helgina. AFP

Hefur skrifað um Southampton

Ýmislegt bendir til þess að auðkýfingurinn hafi lengi átt sér þann draum að eignast knattspyrnulið Southampton og þyki vænt um borgina, en hann hefur reglulega skrifað um dálæti sitt á borginni og staði í nágrenni hennar á suðurströnd Englands.

„Southampton er ekki stór borg en hún er heimsþekkt,“ skrifaði Gao í dagbókarfærslu í októbermánuði árið 2011. Þar lýsir hann því enn fremur að Titanic hafi lagt þar úr höfn í afdrifaríka jómfrúarferð sína árið 1912.

Hann virðist hafa mikla aðdáun á smábænum Poole, sem er í um klukkustundar akstursfjarlægð frá Southampton, en nágrenni bæjarins þykir afar fallegt og þar á kínverski auðkýfingurinn landareign við ströndina, eins og margir aðrir milljarðamæringar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert