Ný útgáfa skipstjórans

Kim Wall.
Kim Wall. AFP

Peter Madsen, eigandi og skipstjóri kafbátsins, sem situr í gæsluvarðhaldi vegna andláts sænsku blaðakonunnar Kim Wall, breytti framburði sínum þegar hann kom fyrir dómara 12. ágúst en áður hafði hann haldið því fram að hann hafi sett Wall á land í Kaupmannahöfn.

Í morgun greindi lögreglan í Kaupmannahöfn frá hluta af því sem Madsen sagði fyrir luktum dyrum í réttarsalnum 12. ágúst. Þar kom fram að Wall hafi látist af slysförum um borð og hann hafi hent henni fyrir borð einhvers staðar í Køge-flóa. 

Danskir kafarar leita Walls í dag og eins taka Svíar þátt í leitinni, bæði með skipum og þyrlum.

Aftonbladet birti frétt á föstudag um bréf sem fjölskylda Wall ritaði það sem hún biðlar til almennings um að veita aðstoð við leitina. „Það er ekkert sem við óskum frekar en að fá Kim til baka á lífi en við gerum okkur grein fyrir því að líkurnar á því eru afar litlar,“ segir í bréfinu. 

Wall var lausapenni fyrir fjölmarga fjölmiðla þar á meðal Guardian og New York Times. Hún útskrifaðist í blaðamennsku frá Columbia-háskólanum í New York og bjó þar í borg sem og í Kína.

Vinir hennar hafa lýst henni sem metnaðargjörnum blaðamanni sem aldrei gafst upp. Eins að hún sæi alltaf það góða í fólki. Madsen og Wall sáust um borð í kafbátnum kvöldið 10. ágúst þar sem þau sigldu frá Kaupmannahöfn og virtist fara vel á með þeim. 

AFP

Þegar Wall skilaði sér ekki heim hafði unnusti hennar samband við lögreglu og tilkynnti hvarf hennar. Um svipað leyti var tilkynnt um hvarf kafbátsins. Hann fannst  í Køge-flóa síðdegis 11. ágúst. Skömmu eftir að kafbáturinn fannst var Madsen bjargað en kafbáturinn sökk skyndilega eftir það. Lögregla telur að Madsen hafi viljandi sökkt kafbátnum en lögregla náði honum á flot. Ekkert fannst við leit í bátnum. 

Þegar blaðamaður spurði Madsen um upplýsingar um blaðamanninn horfna sagði Madsen: „Aðeins að hún heitir Kim.“

„Ég kanna ekki bakgrunn þegar blaðamaður hringir og biður um viðtal,“ svaraði Madsen tómlega þegar hann var leiddur inn í lögreglubíl eftir björgunina.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert