Þriðjungur glímir við geðræn vandamál

Frá vettvangi í Marseille í gær.
Frá vettvangi í Marseille í gær. AFP

Tæplega þriðjungur fólks sem er á lista franskra stjórnvalda vegna mögulegrar hryðjuverkahættu er talið glíma við geðræn vandamál. Þetta kom fram í máli innanríkisráðherra Frakklands, Gerard Collomb, en andlega veikur maður ók á fólk í Marseille í gær.

Maðurinn ók á miklum hraða að fólki sem beið eft­ir stræt­is­vagni á tveim­ur biðstöðvum. Kona á fimm­tugs­aldri lést en ekki er talið að um hryðjuverk hafi verið að ræða.

Rannsakendur segja að 35 ára maðurinn sem ók bílnum hafi glímt við geðræn vandamál en í bílnum var ein bók um heimspeki og önnur um íslam.

Er þetta eitt atvikum síðustu misseri í Frakklandi þar sem menn sem glíma við geðræn vandamál hafa reynt að herma eftir árásum öfgamanna.

Collomb sagði að stjórnvöld fylgdust með 17.400 manns vegna mögulegrar hryðjuverkahættu og þriðjungur þeirra væri talinn glíma við geðræn vandamál.

Ráðherrann sagðist ætla að tryggja sér hjálp geðspítala til að reyna að sjá hvaða sjúklingar gætu verið ógn. „Auðvitað er trúnaður lækna við sjúklinga heilagur en á sama tíma verðum við að finna leið til að koma í veg fyrir að veikt fólk fremji árásir,“ sagði Collomb.

Maðurinn sem ók á fólkið í Marseille hafði verið dæmdur fyrir ofbeldi og rán. „Þetta var ekki hryðjuverk en þetta var eftirlíking,“ sagði Collomb.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert