Verða áfram í Afganistan

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, segir að ef Bandaríkin fari of geyst í að yfirgefa Afganistan sé hætta á að hryðjuverkamenn fylli það tómarúm sem myndist.

Trump segir að í fyrstu hafi hann viljað fara þaðan með bandarískan herafla en hefði ákveðið að vera þar áfram og berjast til sigurs. Með því yrði hægt að koma í veg fyrir mistökin sem gerð voru í Írak.

Ekki yrði um fyrirframákveðið tímabil að ræða en varaði hins við því að ekki væri verið að lofa óútfylltum tékka fyrir Afganistan.

„Bandaríkin munu starfa með ríkisstjórn Afganistan svo lengi sem við sjáum ábyrgð og framfarir,“ segir Trump. 

Talibanar svöruðu ræðu Trump með því að segja í yfirlýsingu að Afganistan yrði enn einn grafreitur Bandaríkjanna ef þau myndu ekki fara með hermenn sína frá Afganistan.

Bandaríkjaforseti varaði Pakistana einnig við því að Bandaríkin myndu ekki lengur una við það að þar fengju öfgamenn hæli. Trump segir að Pakistan hafi of miklu að tapa ef landið standi ekki með Bandaríkjunum. Bandaríkin hafi greitt Pakistan milljarða Bandaríkjadala á sama tíma og landið hýsi hryðjuverkamenn sem Bandaríkin séu í stríði við.

Her Pakistan hafnaði ásökunum Trump að bragði og segir talsmaður hersins að það séu engir felustaðir fyrir hryðjuverkamenn í Pakistan.

Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Jim Mattis, sendi frá sér yfirlýsingu eftir ræðu Trump um afstöðu Bandaríkjanna varðandi Afganistan. Þar kom fram að þegar hafi nokkur af bandalagsríkjum Bandaríkjanna í Afganistan heitið því að fjölga hermönnum sínum í Afganistan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert