Líkið er af Kim Wall

Kim Wall.
Kim Wall. AFP

Lögreglan í Kaupmannahöfn segir að líkið sem fannst fyrir utan Amager í fyrradag sé af Kim Wall, sænsku blaðakonunni sem hafði verið saknað síðan 10. ágúst. Lífsýni úr líkinu, sem var aflimað, sanni að svo sé. Lögreglan hefur boðað blaðamannafund klukkan níu að staðartíma, klukkan sjö að íslenskum tíma. 

Á mánudag greindi lögreglan frá því að Peter Madsen, eig­andi og skip­stjóri kaf­báts­ins, sem sit­ur í gæslu­v­arðhaldi vegna and­láts Kim Wall, hafi breytt framb­urði sín­um þegar hann kom fyr­ir dóm­ara en áður hafði hann haldið því fram að hann hefði sett Wall á land í Kaup­manna­höfn.

Þar kom fram að Wall hefði lát­ist af slys­för­um um borð og hann hent henni fyr­ir borð ein­hvers staðar í Køge-flóa. Síðdegis á mánudag fann hjólreiðamaður lík í sjónum skammt frá Amager er hann hjólaði meðfram strandlengjunni. Hann lét lögreglu strax vita og þótti þegar líklegast að það væri af Wall. Þar sem líkið var aflimað, það er án höfuðs, fótleggja og handa, var það í höndum réttarmeinafræðinga að staðfesta að svo væri. Þeir hafa nú staðfest að svo sé. 

Kim Wall var þrítug að aldri og starfaði í lausamennsku hjá fjölmiðlum víða um heim. Má þar nefna Guardian og New York Times. Hún fór með Madsen, sem er 46 ára, í siglingu með kafbátnum 10. ágúst vegna greinar sem hún var að skrifa um Madsen, sem er frumkvöðull í kafbátasmíði. 

Kafarar sem leituðu Kim Wall.
Kafarar sem leituðu Kim Wall. AFP

Snemma að morgni 11. ágúst lét unnusti hennar vita af því að hún hefði ekki skilað sér heim úr viðtalinu og síðar þann sama dag sökk kafbáturinn en Madsen hafði verið bjargað skömmu áður. 

Lög­regla tel­ur að Madsen hafi vilj­andi sökkt kaf­bátn­um en lög­regla náði hon­um á flot. Ekk­ert fannst við leit í bátn­um. 

Þegar blaðamaður spurði Madsen um upp­lýs­ing­ar um blaðamann­inn horfna sagði Madsen: „Aðeins að hún heit­ir Kim.

Ég kanna ekki bak­grunn þegar blaðamaður hring­ir og biður um viðtal,“ svaraði Madsen tóm­lega þegar hann var leidd­ur inn í lög­reglu­bíl eft­ir björg­un­ina 11. ágúst. 

Politiken fjallar um ævi og störf Kim Wall á vef sínum í dag. Þar kemur fram að hún hafi lokið meistaranámi í blaðamennsku frá Columbia-háskólanum í New York árið 2013. Síðan þá hafi hún starfað víða um heim, svo sem í Asíu, Afríku, Bandaríkjunum og á Kyrrahafinu. Að sögn fjölskyldu hennar bjó hún í Peking og New York jöfnum höndum. 

Að sögn fjölskyldunnar var Wall einbeitt og metnaðargjörn í starfi. Umfjöllunarefni hennar snerust oft um félagsleg málefni, utanríkismál, poppmenningu og málefni kynjanna.

Þrátt fyrir ungan aldur höfðu greinar hennar ratað í fjölmiðla víða - bæði tímarit og dagblöð. 

Hún hafði ferðast um heiminn þveran og endilangan og skrifað frá Norður-Kóreu, Kína og Srí Lanka þar sem hún fjallaði meðal annars um femínisma í blóðugu stríði og frá Haítí þar sem hún dvaldi eftir jarðskjálftann mikla. 

Umfjöllun hennar um loftslagsmál og kjarnorkuvopnatilraunir á Marshalleyjum hlaut í fyrra Hansel Mieth-verðlaunin fyrir umfjöllun í stafrænum miðli.

Kim Wall og Peter Madsen um borð í Nautilus 10. …
Kim Wall og Peter Madsen um borð í Nautilus 10. ágúst. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert