Umdeilt viðhald á bryggju verkamannaleiðtogans

Bryggjumál Jonas Gahr Støre er eitt helsta fréttamálið í Noregi …
Bryggjumál Jonas Gahr Støre er eitt helsta fréttamálið í Noregi í dag. Mynd/Facebook

Mikill úlfaþytur er nú í norskum fjölmiðlum um meinta svarta vinnu sem Jonas Gahr Støre, leiðtogi Verkamannaflokksins, á að hafa notfært sér þegar kom að viðhaldi á bryggju við sumarbústað hans í Kilsund í Aust-Agder-fylki árið 2011, eftir að dagblaðið Finansavisen hélt þessu fram í morgun, og loguðu fjöl- og samfélagsmiðlar þegar stafna á milli af „bryggjumálinu“ sem svo er kallað.

Støre steig þegar fram á Facebook-síðu sinni með ítarlega greinargerð um málið og sór þar af sér að nokkuð í þessa veru hafi gerst en skýrir málið þannig að hann hafi fengið verktaka til að annast bryggjusmíðina. „Þegar ég frétti að hann [verktakinn] hefði fengið tvo félaga sína til að aðstoða sig við smíðina gerði ég honum ljóst að ég héldi mig eingöngu við samninginn sem ég hafði gert við hann,“ segist verkamannaleiðtoganum frá.

Greiddi allt og vaskinn líka

Hann bætir því svo við að þegar óeining hafi komið upp á milli bryggjusmiðanna um skiptingu greiðslna hafi hann þegar snúið sér til lögmanns verktakans og gengið þar úr skugga um að hann væri með hreint borð í málinu. „Ég greiddi svo allt upp í topp ásamt virðisaukaskatti,“ lýkur hann málinu.

Tvenn samtök undir regnhlíf atvinnulífssamtaka Noregs (Næringslivets Hovedorganisasjon, NHO) hafa þegar tekið upp hanskann fyrir Støre og greinir norska ríkisútvarpið NRK frá ummælum Jon Sandnes, formanns Landssamtaka byggingariðnaðarins, sem segir utanríkisráðherrann fyrrverandi hafa gert allt sem í hans valdi stóð til að baktryggja sig gagnvart svörtum vinnubrögðum og bætir því við að reyndar hafi hann gert mun meira til þess en vænta mætti af flestum neytendum.

Dagblaðið VG fjallar einnig ítarlega um málið í morgun og í kjallaragrein á vegum blaðsins, undir fyrirsögninni „Erfitt er að halda vegi sínum svo hreinum“, kemur það fram að Finansavisen fari líkast til með fleipur í áburði sínum á Støre en hins vegar sé ekki útilokað að húsvörður sumarbústaðarins hafi látið hina svörtu greiðslu af hendi rakna. Höfundur klykkir svo út með orðunum „Það sem mest kemur á óvart er að Jonas Gahr Støre haldi úti húsverði í sumarbústaðnum sínum.“

Mjög harðnar nú á dalnum milli norskra stjórnmálafylkinga fyrir stórþingskosningar í landinu 11. september og eru hnúturnar þegar farnar að ganga á milli flokka og fulltrúa þeirra en búist er við stórsigri Verkamannaflokksins eftir fjögurra ára stjórnarsetu Hægriflokksins og Framfaraflokksins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert