Tveir til viðbótar handteknir í Finnlandi

Frá yfirheyrslu vegna málsins í dag.
Frá yfirheyrslu vegna málsins í dag. AFP

Finnska lögreglan hefur handtekið tvo menn til viðbótar í tengslum við hnífstunguárás í Turku síðastliðinn föstudag. Tvær konur létu lífið í árásinni og átta slösuðust.

Fjórir aðrir eru í varðhaldi en árásarmaðurinn hefur verið nafngreindur sem Abderra­hm­an Mechkah, 18 ára hælisleitandi frá Mar­okkó. Málið er rann­sakað sem fyrsta hryðju­verka­árás­in í Finn­landi.

Erlendir fjölmiðlar greina frá því að þeir sem voru handteknir í dag hafi gefið misvísandi upplýsingar um þjóðerni sitt. Þeir sögðu finnskum yfirvöldum að þeir væru frá Alsír en sænskum að þeir væru frá Marokkó.

Lögregla telur líkur á því að árásarmaðurinn sé ekki Mechkah, sem kom til Finnlands í fyrra og var umsókn hans um hæli hafnað. „Við teljum að hinn grunaði hafi veitt rangar upplýsingar við komuna til landsins,“ sögðu rannsóknarlögreglumenn við Reuters. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert