Vindhraðinn náði 43 metrum á sekúndu

Maður horfir yfir höfnina í Hong Kong.
Maður horfir yfir höfnina í Hong Kong. AFP

Öflugur stormur gekk á land á suðurströnd Kína í nótt og olli miklum usla í sjálfstjórnarhéruðunum Hong Kong og Makaó. Stormurinn reif upp tré og lamaði atvinnulíf í fjármálamiðstöðinni Hong Kong, auk þess sem flóð urðu á götum við sjávarsíðuna.

Að minnsta kosti 34 meiddust í Hong Kong og fregnir frá yfirvöldum í Makaó herma að þrír hafi látist í fárviðrinu, að því er fréttastofa Reuters greinir frá.

Stormurinn, sem kallaður er Hato, er sá öflugasti sem herjað hefur á borgina frá því árið 2012. Mesti vindhraði sem mældist er stormurinn gekk á land var 155 km/klst., eða um 43 metrar á sekúndu.

Lægstu svæði borgarinnar urðu illa úti vegna flóða.
Lægstu svæði borgarinnar urðu illa úti vegna flóða. AFP

Fella þurfti niður 450 flug frá Hong Kong og öllum skólum var lokað. Tómlegt var um að litast í fjármálahverfinu, þar sem starfsemi lá niðri og skrifstofufólk hélt sig heima.

„Bílar eru í hálfu kafi vegna flóða og risastór tré hafa fallið til jarðar. Ég hef aldrei séð svona storm,“ segir Garret Quigley, íbúi í vesturhluta Hong Kong, í samtali við Reuters.

Rafmagnsleysi í Makaó

Stormurinn olli tveggja tíma rafmagnsleysi í Makaó, auk þess sem truflanir urðu á síma- og netsambandi. Þar voru mikil flóð á götum og sjór flæddi í drykkjarvatnsból á nokkrum svæðum í borginni. Aðalatvinnugreinin í Makaó er fjárhættuspil og helstu spilavítin þar í borg sluppu við rafmagnsleysið þar sem þau voru búin öflugum vararafstöðvum.

Þessi íbúi í borginni Zhuhai í Guangdong-héraði á suðurströnd Kína …
Þessi íbúi í borginni Zhuhai í Guangdong-héraði á suðurströnd Kína lét storminn ekki aftra sér frá því að hjóla í vinnuna. AFP

Fleiri svæði urðu fyrir barðinu á Hato. Í Guangdong-héraði var fjölda áætlunarfluga aflýst frá Shenzhen-alþjóðaflugvellinum og almenningssamgöngur lágu niðri. Þúsundir íbúa við suðurströnd Kína voru fluttir inn í land og fiskveiðiflotinn kallaður í land.

Sjórinn gengur á land við höfnina í Hong Kong.
Sjórinn gengur á land við höfnina í Hong Kong. AFP
Mikil væta fylgdi storminum Hato.
Mikil væta fylgdi storminum Hato. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert