Norski herinn geti stokkið til verði lögregla undir

Vopnaðir lögreglumenn við Gardermoen-flugvöllinn fyrir utan Ósló.
Vopnaðir lögreglumenn við Gardermoen-flugvöllinn fyrir utan Ósló. Scanpix/Audun Braastad

„Slík staða getur auðveldlega komið upp. Þegar horft er til þeirra verkfæra sem hryðjuverkamenn í Evrópu hafa beitt í árásum sínum undanfarin ár, og þau borin saman við búnað lögreglunnar, getur það vel gerst.“ Þessu svarar Joar Holen Sveen hjá sérsveit norska hersins spurningu dagblaðsins Aftenposten um hvort norska lögreglan gæti orðið undir slægi í brýnu milli hennar og hryðjuverkamanna.

Tilefnið er nýjar reglur um samstarf hers og lögreglu sem kveða meðal annars á um að skilyrði þess, að lögregla óski eftir aðstoð hersins, eru einfölduð verulega en þungamiðja reglnanna, sem taka gildi 1. september, er að í stað þess að uppfylla þurfi sex mismunandi skilyrði áður en herinn getur gripið inn í, nægir að lögreglustjóri sendi einfalda beiðni um slíka aðstoð.

Handbremsan hjá ráðherrum

Þessi lækkaði þröskuldur fyrir heraðstoð er í takt við það sem mörg önnur Evrópulönd setja sér nú verklagsreglur um og hafa Norðmenn einkum litið til Bretlands við mótun sinna reglna. Dagblaðið Adresseavisen fjallaði ítarlega um nýju reglurnar fyrr í sumar og kom þar meðal annars fram, í viðtali blaðsins við Ine Eriksen Søreide varnarmálaráðherra, að nýju reglurnar tryggðu styttri ákvarðanaferla og mun lægra flækjustig en eldri reglur, en um leið væri sá varnagli sleginn að ráðherrar dómsmála og varnarmála héldu um handbremsuna og gætu á hvaða stigi aðgerða sem væri stöðvað íhlutun hersins þætti þeim lögreglustjóri misfara með vald sitt en reglurnar ná til inngrips hersins hvort tveggja á sjó og landi.

„Lögreglan getur lent í aðstæðum þar sem hún hefur ekki sama slagkraft og hugsanlegur andstæðingur,“ segir Leif Petter Sommerseth, ofursti í norska hernum, við Aftenposten en Sommerseth á að baki feril í Afganistan og átti sæti í nefnd sérfræðinga sem mótaði nýju reglurnar. Hann bætir því við að meginreglan sé að lögreglan ráðist til atlögu með það sem hún hefur tiltækt, hverjar sem aðstæður séu, og vitnar þar í Gjørv-skýrsluna sem fjallaði meðal annars um viðbrögð lögreglu við árás Anders Behring Breivik 22. júlí 2011.

„Hver einasta sekúnda skipti máli“

Jørn Schjeldrup, deildarstjóri vettvangsaðgerða lögreglu hjá ríkislögreglustjóra Noregs, segir lögreglu vel búna undir átök við hryðjuverkamenn en stór hluti af vinnunni felist í raun í fyrirbyggjandi aðgerðum og eftirliti. Hlutverk lögreglu sé fyrst og fremst að stöðva atburðarásina þegar ógn steðjar að og koma sem fyrst á almannareglu á ný.

Að sögn Kjell Inge Bjerga, sem sæti átti í undirbúningsnefnd nýju reglnanna, eru hryðjuverkamenn, sem gera árásir í Evrópu, oft mjög frumstæðir og noti gjarnan hnífa og bifreiðar líkt og dæmin sýni. Við notkun stærri ökutækja geti skapast þörf fyrir öflugri skotvopn. „Vandamálið er þó alltaf flutningurinn,“ segir hann að lokum, og á við tímann sem tekið geti að koma sérsveit lögreglu eða hermönnum á vettvang, „hver einasta sekúnda skipti máli í þeim árásum sem við höfum séð síðustu ár.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert