Árás á mosku í Kabúl

Sprengingin varð í mosku í höfuðborg Afganistan. Myndin tengist fréttinni …
Sprengingin varð í mosku í höfuðborg Afganistan. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. Ljósmynd/AFP

Byssumenn, þar af einn í sjálfsmorðssprengjuvesti, gerðu árás á mosku sjía-múslima í Kabúl, höfuðborg Afganistan, í dag. Þegar inn var komið var vestið sprengt og hófu mennirnir skothríð á þá sem þar voru. Enn er óvíst hve margir féllu í árásinni, en talsmaður afganska innanríkisráðuneytisins sagði að minnst tveir lögregluþjónar hefðu látist. Starfsmaður heilbrigðisráðneytisins sagði tvo hafa látist og að ellefu væru særðir, án þess að tiltaka hverjir hinir látnu væru.

Vitni lýstu því að þeir sem hafi verið inni í moskunni hafi reynt að brjóta sér leið þaðan út gegnum rúður hennar. Fjölda sérsveitarmanna tókst að umkringja bygginguna á augabragði, en byssumennirnir tóku gísla og skapaðist umsátursástand.

Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á árásunum, en sjía-múslimar, sem eru í minnihluta í Afganistan, hafa verið skotmark liðsmanna hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams síðustu misseri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert