Banna viðskipti en beita ekki hervaldi

Nicolas Maduro forseti Venesúela og Donald Trump Bandaríkjaforseti. Trump hefur …
Nicolas Maduro forseti Venesúela og Donald Trump Bandaríkjaforseti. Trump hefur lýst stjórn Maduros sem „upplausn lýðræðis“. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur undirritað forsetatilskipum sem bannar öll viðskipti við stjórnvöld í Venesúela og olíufyrirtækin í landinu. Er þetta að sögn forsetans gert til að draga úr fjármagni sem geri Nicolas Maduro, forseta Venesúela, kleift að sýna einræðistilburði.

Hvíta húsið tilkynnti þó einnig í dag að bandarísk stjórnvöld ætli sér ekki að beita hervaldi í Venesúela í nánustu framtíð. Hálfur mánuður er nú frá því að Trump sagðist vera að íhuga hernaðaríhlutun í landinu.

Viðskiptabannið í dag eru stærstu refsiaðgerðir Bandaríkjastjórnar gegn stjórn Maduros til þessa, sem Trump hefur lýst sem „upplausn lýðræðis“.

„Maduro fær ekki lengur að nýta sér bandaríska fjármálakerfið til að auðvelda heildsölurán á efnahag Venesúela á kostnað venesúelsku þjóðarinnar,“ hefur Reuters fréttastofan eftir Steven Mnuchin fjármálaráðherra Bandaríkjanna í dag.

Bannið tekur m.a. til sölu á nýjum  skuldabréfum sem mun gera venesúelska olíufyrirtækinu PDVSA erfitt um vik við endurfjármagna háar skuldir sínar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert