Morðæðið „einstakt í sögu lýðveldisins“

Niels Hoegel hylur andlit sitt í réttarsal árið 2015. Hann …
Niels Hoegel hylur andlit sitt í réttarsal árið 2015. Hann var fundinn sekur um tvö morð og fleiri morðtilraunir og dæmdur í lífstíðarfangelsi. AFP

Þýskur hjúkrunarfræðingur, sem hlaut lífstíðarfangelsisdóm fyrir tveimur árum fyrir að myrða tvo sjúklinga með banvænum lyfjaskammti, er talinn hafa banað að minnsta kosti 90 sjúklingum og mögulega nærri 200.

Yfirvöld segja um að ræða mesta morðæði sem um getur í Þýskalandi frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Niels Hoegel, 40 ára, var í febrúar 2015 fundinn sekur um tvö morð og fjórar morðtilraunir á gjörgæsludeild Delmenhorst-sjúkrahússins, skammt frá Bremen.

Lögregla greindi frá því í dag að frá því að dómurinn féll hefðu sérfræðingar grafið upp og rannsakað líkamsleifar 130 látinna sjúklinga og komist að því að dánartíðnin á tveimur sjúkrahúsum þar sem Hoegel starfaði á árunum 1999 til 2005 hefði verið mun hærri en annars staðar.

„Það sem við komumst að var hryllilegt og umfram nokkuð sem við hefðum getað ímyndað okkur,“ sagði Johann Kuehme, lögreglustjórinn í borginni Oldenburg, þar sem sjúkrahúsin tvö eru staðsett.

Arne Schmidt, sem hefur leitt rannsóknina, sagði fjölda fórnarlamba Hoegel „einstakan í sögu þýska lýðveldisins“. Morðinginn virtist ekki hafa fylgt neinu ákveðnu mynstri en hefði einkum látið til skarar skríða gegn sjúklingum í lífshættu.

Schmidt sagði sönnunargögn benda til þess að Hoegel hefði myrt að minnsta kosti 90 einstaklinga og mögulega framið jafnmörg morð til viðbótar sem ómögulegt yrði að sanna. Sagðist hann „orðlaus“ yfir niðurstöðu rannsóknarinnar.

Hoegel hefur játað að hafa sprautað sjúklinga með efnum sem leiddu til hjartabilunar eða annarra vandkvæða, í þeim tilgangi að geta gert á þeim lífgunartilraunir og staðið uppi sem hetja þegar vel til tókst.

Við réttarhöldin sagðist hann stundum hafa látið til leiðast vegna „leiða“ og að honum hefði ýmist liðið dásamlega þegar honum tókst að „bjarga“ sjúklingunum eða hörmulega þegar honum mistókst.

Yfirvöld greindu frá niðurstöðum Kardio-rannsóknarinnar í dag.
Yfirvöld greindu frá niðurstöðum Kardio-rannsóknarinnar í dag. AFP

Morðþráhyggja

Í kjölfar þess að upp komst um Hoegel hófu yfirvöld rannsókn á dauðsföllum annarra sjúklinga. Var rannsóknin kölluð „Kardio“, sem er dregið af gríska orðinu kardia, eða hjarta.

Að því er lögregla greindi frá í dag voru líkamsleifar 134 einstaklinga grafnar upp í þeim tilgangi að prófa fyrir efnunum sem morðinginn notaði. Þá var ráðist í ítarlega yfirferð læknisfræðilegra gagna og viðtöl tekin við hundruð vitna.

Í mörgum tilvikum reyndist ekki unnt að framkvæma áðurnefnda efnaprófun þar sem líkamsleifar sjúklinganna reyndust hafa verið brenndar.

Málið rataði upphaflega til lögreglu eftir að annar hjúkrunarfræðingur sá til Hoegel þar sem hann sprautaði sjúkling á Delmenhorst-sjúkrahúsinu árið 2005. Sjúklingurinn lifði og í júní 2008 var Hoegel dæmdur í sjö og hálfs árs fangelsi fyrir nokkrar morðtilraunir.

Í kjölfar umfjöllunar um málið setti kona sig í samband við lögreglu og sagðist gruna að Hoegel hefði orðið móður sinni að bana. Þá voru líkamsleifar nokkurra sjúklinga grafnar upp og Hoegel, sem fyrr segir, dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir morð og morðtilraunir 2015.

Þá lá þegar fyrir að fórnarlömb hans hefðu verið mun fleiri.

Yfirvöld segja að koma hefði mátt í veg fyrir fjölda morðanna og eiga nokkrir stjórnendur Delmenhorst yfir höfði sér ákærur vegna gáleysis, þ.e. fyrir að hafa ekki gripið til aðgerða vegna þess mikla fjölda sjúklinga sem lést þegar Hoegel var á vakt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert