Rússar gríðarlega áhyggjufullir

AFP

Rússar hafa gríðarlegar áhyggjur af ástandinu í Norður-Kóreu og óttast að það eigi eftir að stigmagnast. Yfirvöld í Norður-Kóreu skutu flugskeyti yfir norðurhluta Japans í gærkvöldi. 

Aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands, Sergei Ryabkov, segir tilhneiginguna vera þá að staðan versni og því óttist Rússar það versta. 

Forsætisráðherra Japans, Shinzo Abe, segir um fordæmalausa ógn að ræða gagnvart Japan. Eldflauginni var skotið á loft snemma í morgun að kóreskum tíma. Hún fór yfir Hokkaido-eyju áður en hún brotlenti í hafi. Allar líkur eru á að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna verði kallað saman á neyðarfund til þess að ræða viðbrögð við eldflaugaskotinu.

Undanfarin misseri hafa Norður-Kóreumenn ítrekað gert eldflaugatilraunir en þetta er í fyrsta skipti sem þeir skjóta flugskeyti yfir Japan. Það hefur gerst í tvígang að skotið hafi verið yfir Japan úr þessari átt – árið 1998 og 2009 – en þá var verið að skjóta gervihnöttum á loft að sögn yfirvalda í Norður-Kóreu. 

Samkvæmt upplýsingum frá her Suður-Kóreu var eldflauginni skotið upp rétt fyrir klukkan sex að morgni að staðartíma, klukkan 21 að íslenskum tíma, og er skotpallurinn skammt frá höfuðborg Norður-Kóreu, Pyongyang.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert