Hóta frekari eldflaugaskotum

Kína mun taka þátt í aðgerðum annarra ríkja í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna vegna eldflaugaskots Norður-Kóreu yfir Japan. Þetta kom fram í máli utanríkisráðherra Kína, Wang Yi, nokkrum klukkutímum eftir að öryggisráðið hafði einróma fordæmt eldflaugaskotið. Fulltrúi Japans í öryggisráðinu hefur lagt til að nýjar refsiaðgerðir verði lagðar á N-Kóreu.

Að sögn Wang mun Kína, sem er eini stóri bandamaður Norður-Kóreu, taka þátt með öðrum ríkjum öryggisráðsins í aðgerðum gegn Norður-Kóreu. Brugðist verði við og gripið til nauðsynlegra aðgerða vegna eldflaugaskotsins. 

Yfirvöld í Norður-Kóreu segja að eldflaugaskotið yfir Japan hafi verið fyrsta skrefið í hernaðaraðgerðum ríkisins á Kyrrahafi. Því bendir allt til þess að fleiri eldflaugaskot séu í undirbúningi.

Ríkisfjölmiðlar Norður-Kóreu ítrekuðu einnig hótanir í garð eyjunnar Guam á Kyrrahafi sem þeir segja henta fullkomlega fyrir innrás.

Norður-Kóreumenn skutu tveimur langdrægum eldflaugum í tilraunaskyni í síðasta mánuði og þær voru af tegund sem talið er að geti dregið til stórborga á meginlandi Bandaríkjanna. Donald Trump Bandaríkjaforseti svaraði með því að vara N-Kóreumenn við því að hann myndi refsa þeim „með eldi og ofsabræði, sem heimurinn hefur aldrei séð áður“ héldu þeir áfram að hafa í hótunum við Bandaríkin.

Einræðisstjórn N-Kóreu hæddist að viðvörun Trumps og herinn sagðist vera að undirbúa áætlun um að skjóta eldflaugum í átt að bandarísku eyjunni Guam á Kyrrahafi. Tilkynnt var þó síðar að einræðisherrann Kim Jong-un hefði ákveðið að skjóta ekki eldflaug að Guam. Trump sagði seinna í ræðu að sú ákvörðun sýndi að Norður-Kóreumenn væru „farnir að virða Bandaríkin“. 

Þetta kemur fram í fréttaskýringu Boga Þórs Arasonar í Morgunblaðinu í dag.

„Trump og stjórn hans hafa lagt fast að kínverskum stjórnvöldum að knýja Norður-Kóreumenn til að láta af ögrunum sínum en fréttaskýrendur telja litlar líkur á að eldflaugarskotið í fyrrakvöld verði til þess að stefna Kínverja breytist að ráði.

Rodger Baker, sérfræðingur ráðgjafarfyrirtækisins Stratfor í málefnum Asíuríkja, telur að Kínverjar hafi enn nógu mikil áhrif í Norður-Kóreu til að geta steypt Kim Jong-un af stóli en einræðisstjórnin hafi gert allt sem hún geti til að „ónýta tækin sem Kínverjar hafa“ til pólitískrar íhlutunar. Hann skírskotar m.a. til þess að talið var að Kínverjar vildu að Kim Jong-nam, hálfbróðir einræðisherrans í Pjongjang, tæki við stjórnartaumunum en hann var myrtur í Malasíu í byrjun ársins.

Baker spáir því að litlar breytingar verði á framgöngu ráðamannanna í Kína. Hann telur að þeir þjarmi örlítið meira að stjórnvöldum í N-Kóreu, auki eftirlitið við landamæri ríkjanna að einhverju marki, en leggi mest kapp á að koma í veg fyrir að Bandaríkjastjórn beiti hervaldi í Norður-Kóreu,“ segir enn fremur í fréttaskýringunni en hana er hægt að lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert