Kona margstakk aðra konu með hníf

Frá Ósló.
Frá Ósló. AFP

Kona er í lífshættu eftir að önnur kona margstakk hana með hníf í íbúð í Tøyen-hverfinu við miðbæ Óslóar upp úr klukkan 20:30 í kvöld, 18:30 að íslenskum tíma. Lögreglu barst tilkynning frá neyðarlínu sjúkrabíla, Akuttmedisinsk kommunikasjonssentral (AMK), klukkan 20:46 og fór þegar á staðinn.

Sú sem fyrir árásinni varð lá þá illa haldin í stigagangi hússins, sem var ataður blóði, og var þegar komið undir læknishendur á Ullevål-sjúkrahúsinu en lögregla hefur enn ekki getað staðfest hver hún er, eftir því sem Christian Engeseth, sem stjórnar aðgerðum lögreglunnar á vettvangi, sagði í samtali við VG nú fyrir skömmu.

Kona á þrítugsaldri, sem var í íbúðinni, var handtekin á staðnum og er grunuð um líkamsárásina. Skömmu síðar hafði lögregla afskipti af manni á fertugsaldri í tengslum við málið, í fyrstu sem vitni en í ljósi framburðar annarra vitna, íbúa í húsinu, hefur hann nú fengið réttarstöðu grunaðs manns í málinu, að sögn Engeseth.

Lögregla ræðir nú við fleiri vitni á vettvangi í þeirri viðleitni að draga upp mynd af atburðarásinni auk þess sem tæknideild er að störfum í íbúðinni og stigagangi hússins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert