Dæmdir til dauða fyrir bókarýni

AFP

Fjórir fjölmiðlamenn í Suður-Kóreu hafa verið dæmdir til dauða í Norður-Kóreu fyrir bókarýni sem vanvirðir Norður-Kóreu að sögn yfirvalda þar í landi. Bókarýnin var birt í tveimur dagblöðum í S-Kóreu. Blaðamennirnir eru búsettir í Suður-Kóreu.

Dagblöðin Chosun Ilbo og Dong-A Ilbo birtu gagnrýni á bókina sem nefnist Norður-Kórea – trúnaðarmál en hún kom fyrst út árið 2015 og eru höfundar hennar tveir breskir blaðamenn sem eru búsettir í höfuðborg S-Kóreu, Seúl.

Í bókinni er fjallað um vaxandi hlut markaðarins og áhrif þess á daglegt líf íbúa Norður-Kóreu. Þar kemur fram að sjónvarpsþáttaröðum sem eru framleiddar í S-Kóreu er dreift á svarta markaðnum í N-Kóreu og eins hvernig tískuvarningur sem á uppruna sinn í suðri er falsaður og seldur í N-Kóreu. 

Þeir sem eru gómaðir fyrir að dreifa mynddiskum eða USB-lyklum með sjónvarpsþáttum frá S-Kóreu geti einfaldlega greitt mútur til þess að losa sig úr vandræðunum.

Þegar bókin kom út í Kóreu var bókakápunni og titli bókarinnar breytt í Kapítalíska lýðveldið Kórea en yfirvöld í N-Kóreu nefna ríki sitt alþýðulýðveldi. Í stað rauðu stjörnunnar á ermi herbúnings landsins hefur verið komið fyrir dollaramerki.

Með rýni sinni á bókina hafa dagblöðin framið hræðilegan glæp með því að vanvirða heiður DPRK [Alþýðulýðveldisins Norður-Kóreu] með alvarlegum hætti, að því er segir í niðurstöðu dómstólsins sem dæmdi blaðamennina til dauða. Ekki bætti úr skák að blöðin birtu mynd af kápu bókarinnar, segir í frétt ríkisfréttastofu N-Kóreu. 

Einn blaðamaður á hvoru dagblaði og útgefendur blaðanna voru dæmdir til dauða fyrir birtingu bókarýninnar. Þeir voru jafnframt sviptir áfrýjunarrétti og að aftökurnar fari fram innan tíðar á ótilgreindum stað og að þeir verði teknir af lífi án nokkurs fyrirvara.

Aftur á móti voru höfundar bókarinnar, fyrrverandi fréttaritari Economist, Daniel Tudor og James Pearson, sem starfar fyrir Reuters-fréttastofuna, ekki dæmdir fyrir útgáfu bókarinnar. Tudor hefur ekki komið til Norður-Kóreu síðan bókin kom út árið 2015 og hefur að eigin sögn engin áform um að fara þangað aftur.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem stjórnvöld í N-Kóreu dæma íbúa S-Kóreu til dauða. Í júní voru fyrrverandi forseti S-Kóreu, Park Geun-hye, og fyrrverandi yfirmaður leyniþjónustunnar, Lee Byung-ho, dæmdir til dauða. Ástæðan var sú að þau hafi staðið á bak við samsæri um að myrða leiðtoga Norður-Kóreu, Kim Jong-un, í samstarfi við leyniþjónustu Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert