Ekkert bólar á níu ára stúlkunni

Maëlys De Araujo hvarf í brúðkaupi frænku sinnar aðfararnótt sunnudags.
Maëlys De Araujo hvarf í brúðkaupi frænku sinnar aðfararnótt sunnudags. Skjáskot/Twitter

Lögreglan í Frakklandi hefur sleppt tveimur sem grunaðir voru um að tengjast hvarfi hinnar níu ára Maelys de Araujo sem sást síðast aðfaranótt sunnudags í brúðkaupi frænku hennar. Mikil geðshræring greip um sig í brúðkaupinu þegar hvarfið kom í ljós en brúðkaupið var haldið í bænum Isére í frönsku Ölpunum.

Mennirnir sem lögregla hefur nú sleppt þekkjast og eru 34 ára. Í frétt AFP segir að ósamræmi hafi verið í frásögnum þeirra. „Rannsóknin heldur áfram,“ sagði heimildamaður innan lögreglunnar í samtali við AFP. 

Frá leitinni.
Frá leitinni. AFP

Hvarf litlu stúlkunnar með brúnu augun er rannsakað sem mannrán og voru allir brúðkaupsgestirnir yfirheyrðir vegna hvarfsins. Stúlkan sást síðast í barnaherberginu á staðnum um þrjúleytið aðfaranótt sunnudags.

Fjöldi fólks tekur þátt í leit að de Araujo í dag en AFP greinir frá því að búist hafi verið við 1.200 manna leitarflokki. Þyrlur, leitarhundar og kafarar hafa tekið þátt í leitinni en án árangurs. Leitarhundar töpuðu slóðinni á bílastæðinu fyrir utan staðinn þar sem brúðkaupið var haldið og er því talið líklegt að hún hafi verið numin á brott í bíl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert