Kafarar leita litlu stúlkunnar

Kafarar eru að leita á nýju svæði af Maëlys de Araujo, níu ára gamallar stúlku, sem hvarf fyrir viku síðan úr brúðkaupsveislu í frönsku Ölpunum. 

Maëlys var ásamt foreldrum og öðrum í fjölskyldunni í brúðkaupsveislu í bænum Pont-de-Beauvoisin skammt frá l'Isère og hefur ekkert spurst til hennar síðan aðfararnótt sunnudags.

Tveir menn voru handteknir í vikunni í tengslum við hvarfið en þeim var báðum sleppt í gær. Jean Pertue, yfirlögregluþjónn í Tour du Pin (Isère), segir að áfram verði leitað í dag en kafarar hafa ekki leitað í vötnum á svæðinu síðan á fimmtudag. Kafararnir sem taka þátt í dag eru frá d'Aix-les-Bains (Savoie) og Valence (Drôme), segir í frétt Le Parisien. Lögreglumenn og sjálfboðaliðar víða að hafa tekið þátt í leitinni að litlu stúlkunni alla vikuna. 

Mennirnir sem voru í haldi lögreglu eru félagar og eru báðir 34 ára gamlir. Þeir voru látnir lausir á föstudagskvöldið. Ástæðan fyrir því að þeir voru í haldi lögreglu var ósamræmi í vitnisburði þeirra. Talið er að stúlkunni hafi verið rænt en síðustu ummerkin um hana hafa verið rakin á bílastæði fyrir utan veislusalinn. Það voru lögregluhundar sem röktu slóð hennar úr salnum og út á bílastæðið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert