Konunglegt brúðkaup í vændum

Kei Komuro og Mako prinsessa greindu frá hjúskaparáformum sínum á …
Kei Komuro og Mako prinsessa greindu frá hjúskaparáformum sínum á blaðamannafundi í dag. AFP

Mako, prinsessa af Japan og barnabarn Akihitos keisara, og unnusti hennar, Kei Komuro, greindu frá hjónabandsáformum sínum á blaðamannafundi í morgun. Samband þeirra nær fimm ár aftur í tímann en þau voru bekkjarfélagar í háskóla. Brúðkaupið fer fram á næsta ári.

Að sögn Mako var það bros hans, einlægni og stórt hjarta sem varð til þess að hún féll fyrir honum en að hennar sögn minnir bros hans á sólina.

Afi Mako,  Akihito keisari, mun væntanlega láta af völdum seint á næsta ári og tekur elsti sonur hans, Naruhito, krónprins við embættinu en keisarinn er 83 ára að aldri.

Samkvæmt japönskum lögum mun Mako missa alla titla sína og konungborna stöðu sína þegar hún giftist Komuro, þar sem hann er almúgamaður. Lögin eiga ekki við um karlmenn í keisaraættinni, en bæði Naruhito krónprins og bróðir hans Akishimo, faðir Mako, giftust almúgakonum.

Tíðindin hafa því dregið athyglina að hinum umdeildu lögum á ný, en þau voru sett árið 1947. Þykir sumum ástæða til þess að endurskoða þau, ekki síst í ljósi þess að keisaratignin sjálf getur einungis gengið í karllegg.

Kei Komuro og Mako.
Kei Komuro og Mako. AFP

Sú staðreynd hefur aftur valdið áhyggjum, þar sem Naruhito krónprins á bara eina dóttur, og Akishimo, sem þar með er næstur í erfðaröðinni, á tvær dætur og einn son, hinn tíu ára gamla Hisahito, sem mun þá erfa keisaratignina að Akishimo gengnum. Börn Mako verða hins vegar ekki gjaldgeng, óháð kyni þeirra.

Áður en Hisahito fæddist árið 2006 hafði umræða hafist í Japan um hvort breyta þyrfti erfðareglum keisaradæmisins, en íhaldsmenn í landinu segja það óhugsandi að rjúfa erfðaröðina, sem gengið hefur í 2.600 ár í beinan karllegg, í gegnum 125 kynslóðir.

Parið hefur verið saman í fimm ár.
Parið hefur verið saman í fimm ár. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert