Lögregla þakkar viðbrögð sem skiptu sköpum

Lögreglumaður að störfum við St. Hallvard-framhaldsskólann í dag.
Lögreglumaður að störfum við St. Hallvard-framhaldsskólann í dag. AFP

Lögreglan í Lier í Noregi þakkar snarræði 18 ára pilts að annar, 19 ára, var handtekinn aðeins 20 mínútum eftir að hafa stungið 16 ára stúlku tíu sinnum á skólalóð við framhaldsskóla hennar.

Klukkan 11 í morgun, 9 að íslenskum tíma, barst lögreglunni í Lier í fylkinu Buskerud, vestur af Ósló, tilkynning um alvarlega líkamsárás þar sem 19 ára piltur hafði birst í St. Hallvard-framhaldsskólanum utan við bæinn Lier og stungið fyrrverandi kærustu sína, 16 ára gamla, að minnsta kosti tíu sinnum með eggvopni, að sögn vitna.

Arild Ølberg, aðgerðastjóri lögreglunnar í Suðaustur-umdæminu, sagði í samtali við mbl.is nú fyrir skömmu að vopnuð lögregla hefði verið send með hraði frá lögregluumdæmunum í Lier og Drammen, en skólinn er mitt á milli þessara bæja.

„Þetta er sannarlega ekki daglegt brauð fyrir okkur hér í Buskerud,“ sagði Ølberg og bætti því við að lögreglumennirnir sem komu á vettvang hefðu verið almenn lögregla en ekki sérsveit þar sem eina sérsveitin í nágrenninu sé í Ósló en lögreglan í Drammen og Lier hefur hvort tveggja skammbyssur og Heckler & Koch-hríðskotabyssur á lögreglustöðvunum.

Fékk árásarmanninn til að snúa sér við

Það var snarræði ungs nemanda við skólann, Mathiasar, sem lögregla hefur ekki nafngreint nema með fornafni enn þá, sem varð til þess að árásarmaðurinn var handtekinn aðeins 20 mínútum eftir atburðinn. Mathias hljóp á eftir boðflennunni og með því að hrópa fékk hann flóttamanninn til að snúa sér við í örstutta stund sem nægði Mathiasi til að ná mynd af andliti hans á símann sinn sem hann sýndi lögreglu auk þess að geta bent á hvaða leið maðurinn hljóp.

Aðstoðarskólastjórinn hljóp á eftir manninum og fór lögreglan þegar á eftir með hunda og náðist árásarmaðurinn fljótlega í nágrenninu. Að sögn Ølberg er ástand stúlkunnar stöðugt eins og er en hún var í lífshættu fyrstu klukkustundirnar eftir atburðinn.

Nemandi við skólann lýsti því í samtali við norska ríkisútvarpið NRK í kvöldfréttum nú fyrir skemmstu að það væri sjúkt að hugsa til þess að svona hlutir gerðust í dreifbýli í Buskerud þótt auðvitað könnuðust nemendur við árásir í skólum erlendis.

Árásarmaðurinn situr nú í gæsluvarðhaldi í Drammen og á yfir höfði sér ákæru fyrir tilraun til manndráps en nemendur og starfsfólk skólans fengu áfallahjálp frá fagfólki á sal skólans í hádeginu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert