Næstu skref í höndum öryggisráðsins

Frá síðasta neyðarfundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem fram fór 29. …
Frá síðasta neyðarfundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem fram fór 29. ágúst síðastliðinn. Ráðið kemur aftur saman í dag. AFP

Viðbrögð alþjóðasamfélagsins við eld­flauga- og kjarn­orku­vopna­tilraunum Norður-Kóreu eru í höndum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þetta segir Vera Knútsdóttir, öryggis- og varnarmálafræðingur og framkvæmdastjóri félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, í samtali við mbl.is. Boðað hefur verið til neyðarfundar í öryggisráðinu seinna í dag. Fund­ur­inn verður hald­inn fyr­ir opn­um tjöld­um, en flest­ir fund­ir ör­ygg­is­ráðsins sem tengj­ast Norður-Kór­eu hafa hingað til verið lokaðir. 

Líkt og hefur ítrekað komið fram sprengdu stjórnvöld í Norður-Kór­eu vetnis­sprengju neðanjarðar í tilraunaskyni aðfaranótt sunnudags sem að þeirra sögn heppn­aðist fullkomlega. Sprengj­an er fimm eða sex sinn­um öfl­ugri en síðasta kjarn­orku­tilraun rík­is­ins og fullyrða stjórnvöld að hægt sé að koma sprengjunni fyr­ir á lang­drægri eld­flaug sem dragi til annarra heims­álfa.

Frétt mbl.is: Sprengdu sjöttu kjarn­orku­sprengj­una

Kjarnorkutilraun Norður-Kóreu aðfaranótt sunnudags var sú stærsta af sex tilraunum …
Kjarnorkutilraun Norður-Kóreu aðfaranótt sunnudags var sú stærsta af sex tilraunum hingað til. Kort/AFP

Vera telur líklegt að umræða um viðskiptaþvinganir verði í fyrirrúmi á fundi öryggisráðsins í dag. „Bandaríkjamenn munu örugglega leggja fram þá tillögu sem þeir hafa rætt opinberlega, það er að settar verði þvinganir á þau ríki sem stunda viðskipti við Norður-Kóreu.“ Vera telur hins vegar ólíklegt að viðskiptaþvinganir verði samþykktar. „Það er mjög ólíklegt að þær muni komast í gegn þar sem Kína er stór aðili í öryggisráðinu og 90% viðskipta Norður-Kóreu eru við Kína.“

Vera Knútsdóttir, framkvæmdastjóri félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.
Vera Knútsdóttir, framkvæmdastjóri félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

Hins vegar geti aðildarríki öryggisráðsins beitt ýmis konar pressu á stjórnvöld í Kína. „Þó að þetta fari ekki í gegn er líklegt að sett verði pressa á Kínverja að hóta þvingunum eða að draga úr viðskiptum við Norður-Kóreu svo að það teygist á líflínunni. Það er spurning hvort slík pressa virki til að hægja aðeins á stjórnvöldum í Norður-Kóreu og fá þau til að setjast að samningaborðinu og reyna að koma á viðræðum,“ segir Vera.

Samningaleiðin eða hernaðarleiðin?

Bandaríkin munu bregðast við allri hættu sem stafar af Norður-Kóreu með „umfangsmiklum hernaði,“ (e. massive military response), ef marka má orð James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Þá hefur Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagt Bandaríkin vera tilbúin að beita kjarnorkuvopnum haldi stjórnvöld í Norður-Kóreu hótunum sínum áfram.

Frétt mbl.is: Bandaríkin tilbúin að beita kjarnavopnum

Líkt og með mörg önnur utanríkismál hefur Trump notað Twitter aðgang sinn til að bregðast við aðgerðum stjórnvalda í Norður-Kóreu. „Trump er hvatvís, en hann er að leggja öll spilin á borðin. Það er bæði hægt að fara hernaðarleiðina og samningaleiðina, en auðvitað er samningaleiðin alltaf best. Ég er þó ekki viss að Bandaríkjastjórn sé tilbúin til að setjast niður með Norður-Kóreumönnum og ræða málin. Það þarf að róa ástandið og draga úr spennunni áður en það getur gerst,“ segir Vera.

Hún telur það eðlilegt undir þessum kringumstæðum að Trump hafi lýst því yfir að Bandaríkin muni svara kjarnorkuárás með kjarnorkuárás. „Obama gerði slíkt hið sama í Sýrlandi. Með þessum viðbrögðum er Trump að fara eftir stefnu Bandaríkjanna þegar kemur að gereyðingavopnum,“ segir Vera. „En úr því að hann segir á Twitter að hann sé tilbúinn að fara samningaleiðina er það jákvætt og maður verður að vona að sú leið verði farin. Ég tel það mjög ólíklegt að hernaðarleiðin verði farin. Til þess þarf Trump að fá samþykki þingsins, en þingið samþykkir fjárlögin,“ segir Vera jafnframt.  

Líkur á áframhaldandi tilraunum

Aðspurð um líkleg næstu skref stjórnvalda í Norður-Kóreu segir Vera að búast megi við áframhaldandi tilraunum. „Það má búast við því að Norður-Kóreumenn geri næst tilraunir með langdræga eldflaug.“ Spurningin sé hins vegar hver svörunin verður? Suður-Kóreumenn hafa svarað með heræfingum sem Vera telur að gæti haft neikvæðar afleiðingar og leitt til átaka, en geti á sama tíma virkað sem forvörn.

„En það er erfitt að setja sig í spor stjórnarinnar í Norður-Kóreu.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert