Segir Maëlys hafa farið inn í bíl sinn

Maëlys De Araujo hvarf í brúðkaupi frænku sinnar aðfararnótt sunnudagsins …
Maëlys De Araujo hvarf í brúðkaupi frænku sinnar aðfararnótt sunnudagsins í síðustu viku og ekkert hefur síðan til hennar spurst. Skjáskot/Twitter

Maðurinn sem ákærður hefur verið fyrir að ræna 9 ára franskri stúlku, Maëlys de Ar­aujo, sem hvarf í brúðkaupi um síðustu helgi hefur viðurkennt við yfirheyrslur að hún hafi komið inn í bíl sinn. Hann neitar hins vegar alfarið að hafa rænt henni, að því er AFP-fréttastofan hefur eftir Bernard Meraud, lögfræðingi mannsins.  

Rúm vika er nú liðin frá því að Maëlys hvarf. Síðast sást til hennar aðfaranótt sunnu­dags­ins fyr­ir viku í veislu­sal í bæn­um Pont-de-Beau­vois­in, sem er í 50 km fjar­lægð frá Grenoble. Þar var hún í brúðkaups­veislu ásamt for­eld­um og fjöl­skyldu. Fjöl­mennt lið lög­reglu og björg­un­ar­sveit­ar­manna hef­ur leitað henn­ar í skóg­lendi allt í kring með aðstoð þyrlu, kafara og leitarhunda án ár­ang­urs. 

Maðurinn, sem úrskurðaður var í gæsluvarðhald í gær og ákærður er fyrir að hafa rænt Maëlys og halda henni fanginni, var meðal gesta í brúðkaupinu.

Þreif bílinn daginn eftir hvarfið

Erfðaefni Maëlys hefur fundist í bíl mannsins, sem var lagt upp við húsið sem veislusalurinn er í, en AFP segir manninn hafa þrifið bíl sinn strax næsta dag.

Meraud segir skjólstæðing sinn hafa sagt lögreglu að Maëlys hafi „sest inn í bílinn ásamt litlum strák, þau hafi sest í aftursætið til að sjá hvort að hundur hans [hins ákærða] væri í skottinu.“

Hann staðfesti að leifar að erfðaefni Maëlys hafi fundist á mælaborði bílsins, en að skjólstæðingur sinn „neiti algjörlega“ að hafa rænt henni.

Verið geti hins vegar að börn hafi klifrað inn í bílinn án þess að ökumaðurinn hafi vitað af því, þar sem að allar rúður voru skrúfaðar niður á meðan að veislan stóð yfir.

Fyrrum hermaður sem býr hjá foreldrum sínum

France Info útvarpsstöðin segir manninn, sem er 34 ára, vera fyrrverandi hermann sem búi hjá foreldrum sínum skammt frá. Önnur útvarpsstöð RTL hefur eftir móður hans, sem rætt var við án þess að nafn hennar væri gefið upp, að sonur hennar væri saklaus.

„Hann er góður drengur sem myndi engan meiða,“ sagði konan og sakaði yfirvöld um að ofsækja hann af því að þau yrðu að finna sökudólg.

Maðurinn var handtekinn síðasta fimmtudag ásamt vini sínum sem einnig var í brúðkaupinu, vegna misræmis í vitnisburði þeirra. Þeim var báðum síðan sleppt, en maðurinn var svo handtekinn aftur um helgina.

France Info segir hann fljótt hafa vakið athygli lögregluyfirvalda m.a. af því hans hefði verið saknað veislunni þegar Maëlys hvarf, auk þess sem hann hreinsaði bíl sinn strax næsta dag.

Meraud segir ástæðu bílaþvottarins vera þá að skjólstæðingur sinn hafi ætlaði að selja bílinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert