New York hótar Trump málssókn

Ungir innflytjendur og stuðningsmenn þeirra taka þátt í mótmælum í …
Ungir innflytjendur og stuðningsmenn þeirra taka þátt í mótmælum í Los Angeles. Fjöldi Bandaríkjamanna er þeirra skoðunar að ekki eigi að afnema DACA. AFP

New York- og Washingtonríki hótuðu því í gær að fara í mál við Donald Trump Bandaríkjaforseta láti hann ekki af þeim fyrirætlunum sínum að afnema DACA áætlunina, sem hefur verndað þá ólöglegu innflytjendur sem komu til Bandaríkjanna sem börn að aldri fyrir því að vera sendir úr landi.

Reuters-fréttastofan segir búist við að stjórn Trumps tilkynni í dag að áætlunin verði numin úr gildi og að Bandaríkjaþing fái þá gefnir sex mánuði til að semja lagafrumvarp sem koma eigi í stað núgildandi laga.

Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur staðfest að dómsmálaráðherrann, Jeff Sessions, muni í dag tilkynna áætlun um endalok DACA, en að hann muni ekki svara neinum fyrirspurnum um málið.

Verja áætlunina með öllum mögulegum leiðum

Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, og ríkissaksóknari New York, Eric Schneiderman, sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu um málið. „Gjörðir forsetans munu kollvarpa lífi hundruð þúsunda ungmenna sem hafa aldrei kallað annað land en Bandaríkin heimaland sitt,“ sagði í yfirlýsingunni.

Þá hefur Bob Ferguson, ríkissaksóknari Washington einnig hótað málssókn. „Ég mun nota öll lagaleg tól sem ég hef í fórum mínum til að verja þúsundir í Washingtonríki,“ sagði í yfirlýsingu Ferguson.

Ferguson og Schneiderman voru í hópi 20 ríkissaksóknara sem skrifuðu Trump í júlí og sögðust munu verja áætlunina með öllum mögulegum leiðum“.

Hótað málssókn verði DACA ekki afnumið

Níu ríkissaksóknarar úr röðum repúblikanaharfa hins vegar tilkynnt að þeir munu höfða mál fyrir dagslok, láti Trump hjá líða að tilkynna um endalok DACA.

Talsmenn Hvíta hússins hafa ekki viljað tjá sig um málið.

DACA áætluninni var komið á fót í forsetatíð Barac Obama til að verja tæplega 800.000 ungmenni, sem oft eru kölluð „dreamers“ fyrir því að vera vísað úr landi og gera þeim kleift að vinna löglega.

Er Trump nú sagður hugleiða að heimila þeim ungmennum sem eru með löggild vinnuleyfi að vera í landinu þar til leyfi þeirra rennur út, samkvæmt heimildamanni Reuters sem þekkir vel til málsins. Dómsmálaráðuneytið segir hins vegar ekki standa til að velja ungmennin út til brottflutnings.

Bara brot af fjöldanum

Talið er að ungmennin sem falla undir DACA áætlunina séu aðeins lítið brot af þeim 11 milljónum ólöglegra innflytjenda sem eru í Bandaríkjunum og flest þeirra koma frá ríkjum Suður-Ameríku.

Eitt af kosningaloforðum Trump var að flytja þau öll úr landi, en fjöldi Bandaríkjamanna eru á öðru máli og hafa stutt því að ungmenni sem dvalið hafa stærsta hluti ævi sinnar í Bandaríkjunum fái að vera áfram í landinu.

Nokkrir af þingmönnum Repúblikanaflokksins hafa tekið í sama streng, þó að flokkurinn taki almennt hart á málefnum innflytjenda. Þannig hvatti Paul Ryan, forseti fulltrúadeildar þingsins Trump til að afnema ekki áætlunina. Þá sagði öldungadeildarþingmaðurinn James Lankford ekki viðeigandi að láta börn bera lagalega ábyrgð á gjörðum foreldra sinna.

Fjöldi stjórnenda stórfyrirtækja hafa líka hvatt forsetann til að leyfa DACA að standa, m.a. framkvæmdastjórar Microsoft, General Motors og Facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert