Gengur vel frá húsinu og keyrir á brott

Fellibylurinn Irma.
Fellibylurinn Irma. AFP

„Við erum að pakka og ganga frá öllu lauslegu inn í hús og reyna að undirbúa okkur sem best,“ segir Sigrún Eva Kristinsdóttir sem býr á Miami í Bandaríkjunum. Fellibylurinn Irma mun skella á svæðinu líklega á föstudag eða laugardag. Yfirvöld hafa beðið íbúa um að ganga frá húsum sínum og yfirgefa svæðið ekki seinna en á morgun. Ástæðan er sú að ekki verður hægt að tryggja aðstoð ef eitthvað kemur upp á.

Sex hafa þegar látið lífið af völdum Irmu á frönsku eyj­un­um Saint-Barts og Saint-Mart­in í Karíbahafi, að sögn AFP-fréttastofunnar.

Sigrún heldur því að af stað á morgun akandi á brott undan fellibylnum. „Við þurfum að finna okkur annan samastað. Við erum ekki alveg búin að ákveða hvert við förum,“ segir Sigrún. Hún segir fjölskylduna ákveða það seint í kvöld eða um klukkan 11 að staðartíma því það muni ráðast af hvað kemur fram í tilkynningu frá veðurstofunni um ferðir Irmu.  

Búist er við miklu umferðaröngþveiti á næstu dögum þegar íbúar á Miami flýja fellibylinn. 

„Það er mikil óvissa um hvað verður og hvort húsið standi þetta af sér. Maður vonar það besta. Það er það eina sem hægt er að gera í stöðunni,“ segir Sigrún. Hún hefur búið í Miami í 20 ár. Árið 2005 varð hún fyrir barðinu á fellibylnum Wilmu sem náði að rífa þakið af húsinu hennar. Hún segist hafa verið heppin í það skipti því auðsótt var að skipta um þak. Hún vonar að húsið standi þetta áhlaup af sér en tekur fram að Irma sé einn kraftmesti fellibylur sem hefur skollið á landi í lengri tíma og óvíst hvaða eyðileggingu hún muni skilja eftir sig.  

Starfsmenn veitngastaðarins Islamorada á Flórída verja rúður fyrir Irmu.
Starfsmenn veitngastaðarins Islamorada á Flórída verja rúður fyrir Irmu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert