Hvernig gat hún dáið úr malaríu?

AFP

Andlát fjögurra ára gamallar stúlku sem lést úr malaríu nýverið í norðurhluta Ítalíu er nú rannsakað sem manndráp. Dauði stúlkunnar er læknum ráðgáta sem hefur nánast heltekið ítölsku þjóðina.

Stúlkan, Sofia Zago, hafði ekki ferðast til landa sem hætta er á malaríu-smiti en hún hafði eytt sumarleyfinu með fjölskyldunni á ströndinni í Veneto-héraði. Veneto-hérað er líkt og Evrópa öll, laust við malaríu.

Zago hafði komið á barnadeildina á Santa Chiara-sjúkrahúsinu vegna meðferðar við sykursýki en á sama sjúkrahúsi var fjölskylda sem hafði smitast af malaríu í ferðalagi til Búrkína Fasó. 

Sérfræðingar rannsaka nú hvort  moskító-fluga hafi borið smit frá fjölskyldunni yfir í Sofiu Zabo með stungu en saksóknarar í Trento rannsaka hvort hún hafi getað smitast með notaðri sprautunál á sjúkrahúsinu. Það er að sama sprautunál hafi verið notuð við meðferð Sofiu og fjölskyldunnar. Sjúkrahúsið segir að þar séu aðeins notaðar einnota nálar og útilokað sé að sama nál hafi verið notuð á fleiri en einn sjúkling.

Bæði fjölskyldan og Sofia veiktust af sömu tegund malaríu, plasmodium falciparu, en sérfræðingar eru að reyna að finna út úr því hvort upptökin séu þau sömu. Ef um ólíkan uppruna er að ræða er hægt að útiloka að smitið hafi borist á sjúkrahúsinu. Sofia Zabo verður krufin í dag. Moskítóflugnategundin anopheles er eina tegundin sem vitað er til að beri malaríu á milli manna.

Colin Sutherland, prófessor í sníkjudýrafræði við London School of Hygiene & Tropical Medicine, segir að anopheles-moskítóflugur sé mögulega að finna á Ítalíu en varla svo norðarlega.

Eins hafi komið upp tilvik þar sem fólk hefur smitast af malaríu í Evrópu af moskítóflugum sem hafi komið til álfunnar á heitum sumrum annaðhvort í ferðatöskum eða flugvélum sem koma frá löndum þar sem malaría er landlæg.

Massimo Galli hjá smitsjúkdómadeild landlæknis Ítalíu segir mjög ólíklegt að um svokallaða „ferðatösku-moskítóflugu“ sé að ræða í þessu tilviki þar sem fjölskyldan kom ekki beint á sjúkrahúsið frá Afríku með farangur sinn.

Galli viðurkennir að um ráðgátu sé að ræða og taka verði tillit til allra mögulegra þátta - jafnvel nánast ómögulegra.

Heilbrigðisyfirvöld í Trento segja að gildrur sem hafi verið settar upp á sjúkrahúsinu eftir dauða stúlkunnar hafi ekki skilað neinu. Engar anopheline moskítóflugur hafi fundist. Ekki sé hægt að útiloka að slík fluga hafi komið á sjúkrahúsið og farið þaðan aftur.

Í fyrstu var talið að Sofia væri með hálsbólgu en hið sanna kom ekki í ljós fyrr en á laugardag og var hún þá flutt á gjörgæsludeild. En ástand hennar versnaði mjög hratt og dó hún á mánudagsmorgun.

Aftur á móti hefur fjölskyldan, móðir og þrjú börn, sem smitaðist í Búrkína Fasó náð heilsu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert