N-Kórea mótmælir ályktun öryggisráðsins

Frá fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í gær.
Frá fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í gær. AFP

Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa lýst yfir reiði vegna ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um hertar refsiaðgerðir gegn ríkinu sem samþykktar voru í gær.

Í yfirlýsingu frá norður kór­esku rík­is­frétta­stof­unn­i KNCA sem BBC greinir frá eru bandarísk stjórnvöld vöruð við því að ef gripið verður til enn hertari aðgerða muni Norður-Kórea tryggja að „Bandaríkin fái makleg málagjöld.“

Öryggisráðið kom saman í gær þar sem hertar viðskiptaþvinganir gegn Norður-Kóreu vegna flugskeytatilrauna þeirra voru samþykktar einróma. Til að ná þeirri niðurstöðu þurftu Bandaríkin að gefa aðeins eftir í kröfum sínum til að fá samþykki Rússa og Kínverja. Ályktun öryggisráðsins er sú níunda sem er samþykkt einróma frá árinu 2006.

Refsiaðgerðirnar fela meðal annars í sér takmarkanir á innflutningi hráolíu og bann við útflutningi á norður-kóreskum vefnaðarvörum.

Með því að takmarka innflutning á hráolíu og banna útflutning á vefnaðarvörum vonast öryggisráðið til þess að minnka tekjur Norður-Kóreu og takmarka þannig getu stjórnvalda til vopnaframleiðslu.

Vefnaðarvörur eru önnur helsta útflutningsafurð Norður-Kóreu. Tæplega 80 prósent af vefnaðarvörunum eru seldar til Kína. Þá flytur Norður-Kórea mest af olíu inn frá Kína.

Takmarkanir á innflutningi ná bæði til hráolíu og hreinsaðrar olíu. Samkvæmt ályktun öryggisráðsins mun Norður-Kórea ekki geta flutt inn meira en tvær milljónir af tunnum af hreinsaðri olíu á ári. Í dag er talið að landið flytji  inn allt að 4,5 milljónir tunna árlega.

Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, ávarpaði öryggisráðið þegar ályktunin hafði verið samþykkt. „Það er okkur ekki ánægjuefni að herða refsiaðgerðir frekar í dag. Við erum ekki að leita eftir stríði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert