Frændinn er ekki faðir barnsins

nd­versk­ar kon­ur taka þátt í mót­mælaaðgerðum gegn kyn­ferðisof­beldi í land­inu.
nd­versk­ar kon­ur taka þátt í mót­mælaaðgerðum gegn kyn­ferðisof­beldi í land­inu. AFP

Indverska lögreglan hefur nú aftur hafið rannsókn á máli 10 ára stúlku, sem eignaðist barn í síðasta mánuði eftir að hæstiréttur landsins synjaði henni um fóstureyðingu. Stúlkan, sem veit ekki að hún bar barn undir belti, fullyrti að fullorðinn frændi hennar hefði nauðgað sér nokkrum sinnum mánuðina á undan.

DNA rannsókn hefur nú leitt í ljós að frændinn, sem ákærður hefur verið fyrir nauðgun, er ekki faðir barnsins. Frændinn situr í fangelsi og bíður þess nú að dómstóll sem sérhæfir sig í glæpum gegn börnum taki málið fyrir. Hann hefur ekki tjáð sig um málið.

BBC segir DNA rannsóknina nú vekja upp spurningar um það hvort að stúlkan hafi verið misnotuð af fleirum. Faðir stúlkunnar hefur áður sagt BBC að frændinn hafi ekki neitað ásökunum og lögregla segir hann hafa játað glæp sinn.

Engin annar legið undir grun

„Fram til þessa hefur engum dottið annar möguleiki í hug. Stúlkan játaði fyrir rétti í gegnum myndbandsyfirheyrslu og hún nefndi frænda sinn með nafni og upplýsti um viss atriði misnotkunarinnar,“ hefur BBC eftir embættismanni sem tengist rannsókninni.

Þá sagði móðir stúlkunnar rannsakendum að enginn annar lægi undir grun og er málið því nú talið hafa tekið alveg nýja stefnu.

Lögregla og félagsráðgjafi heimsóttu fjölskylduna á ný í gær til að ræða við stúlkuna og farið hefur verið fram á að DNA rannsóknin verði endurtekin, til að tryggja að ekki sé um mistök að ræða.

Það var um miðjan júlímánuð sem uppgötvaðist að stúlkan væri ólétt. Hún kvartaði um verk í maga og foreldrar hennar fóru með hana á spítala þar sem þungunin kom í ljós. Í kjölfarið var óskað eftir að hún fengi að fara í fóstureyðingu en beiðninni var hafnað á þeim forsendum að hún væri of langt gengin og gæti því stafað hætta af slíkri aðgerð.

Barnið er nú í umsjá félagsmálayfirvalda og verður gefið til ættleiðingar, þar sem að fjölskylda stúlkunnar hefur neitað að hafa nokkur afskipti af því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert