Maðurinn sem bjargaði heiminum látinn

Stanislav Petrov var með öll gögn sem gáfu til kynna …
Stanislav Petrov var með öll gögn sem gáfu til kynna eldflaugaárás, en sagðist ekki hafa getað hreyft sig. Ljósmynd/Twitter

Stanislav Petrov, sem var liðsforingi í sovéska hernum og lofaður hefur verið fyrir að koma í veg fyrir kjarnorkuárás á tímum kalda stríðsins, er látinn.

Petrov, sem var 77 ára er hann lést, var á vakt í stjórnstöð sovéska hersins árið 1983 þegar mælitæki gáfu til kynna að eldflaugum hefði verið skotið frá Bandaríkjunum í átt að Sovétríkjunum.

Hann taldi að um bilun í mælitækjum væri að ræða og tilkynnti málið ekki til yfirmanna sinna. Það var ekki fyrr en mörgum árum síðar að greint var frá þessu og að Petrov hefði þarna mögulega komið í veg fyrir kjarnorkustríð.

Petrov lést á heimili sínu í Moskvu í maí á þessu ári, en ekki hefur verið greint frá andláti hans opinberlega fyrr en nú.

BBC tók viðtal við Petrov 2013 þar sem hann sagði frá því þegar hann fékk í hendurnar tölvuútprent snemma morguns 26. september 1983 sem gáfu til kynna að nokkrum bandarískum eldflaugum hefði verið skotið á loft.

„Ég var með öll gögnin sem gáfu til kynna eldflaugaárás. Ef ég hefði sent skýrsluna upp valdastigann hefði enginn mótmælt neinu,“ rifjaði Petrov upp.

„Ég þurfti ekki annað en að taka upp símtólið og hafa samband beint við æðstu stjórnendur, en ég gat ekki hreyft mig. Mér fannst ég sitja í sjóðheitri pönnu.“

Samkvæmt þjálfun sinni hefði Petrov átt að hafa samband við yfirstöðvar hersins en þess í stað tilkynnti hann bilun í tækjabúnaði.

„Ef ég hefði haft á röngu að standa hefði fyrsta sprengjan sprungið nokkrum mínútum síðar. 23 mínútum síðar áttaði ég mig á því að ekkert hafði gerst. Ef það hefði verið raunveruleg árás hefði ég vitað af því þá, það var verulegur léttir,“ sagði Petrov.

Rannsókn leiddi síðar í ljós að sovéskur gervihnöttur hafði ranglega talið endurskin sólar á skýjum vera eldflaugar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert