María orðin 4. stigs fellibylur

Frá eyjunni Guadeloupe fyrr í dag.
Frá eyjunni Guadeloupe fyrr í dag. AFP

Fellibylurinn María styrkist og er orðinn hættulegur fjórða stigs fellibylur að sögn bandarískra veðurfréttamanna. Fellibylurinn stefnir á Leeward-eyjar í Karíbahafinu en meðal þeirra eru Antigua og Barbuda. Gert er ráð fyrir að hann komi á land á eyjunum síðar í kvöld.

María er á nokkurn veginn sömu leið og fellibylurinn Irma, sem fór yfir eyjar í Karíbahafinu og Flórída með skelfilegum afleiðingum fyrr í mánuðinum. Eftirlit með fellibylnum er nú virkt í Púretó Ríkó, St. Martin, St. Barts, Saba og fleiri eyjum í Karíbahafinu. 

Viðvaranir hafa verið gefnar út á eyjunum Guadeloupe, Dominica, St. Kitts og Nevis, Martinique, St. Lucia, Bandaríkjunum og Bresku Jómfrúaeyjum. 

Margar eyjanna eru enn að ná sér eftir að fellibylurinn Irma fór þar yfir, en Irma var fimmta stigs fellibylur sem olli í það minnsta 37 dauðsföllum og milljarða dollara tjóni. 

Bandaríska fellibylsmiðstöðin hefur gefið út viðvaranir vegna mikilla rigninga sem fellibylurinn kann að valda en þeim gætu fylgt mikil flóð og aurskriður. Gert er ráð fyrir 51 cm af úrkomu á sumum svæðum í Karíbahafinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert