Manafort bauðst til að upplýsa Rússa

Paul Manafort bauðst til að upplýsa rússneskan milljarðamæring um framgang …
Paul Manafort bauðst til að upplýsa rússneskan milljarðamæring um framgang bandarísku forsetakosninganna. AFP

Paul Manafort, sem var kosningastjóri Trumps um tíma, bauðst til að upplýsa rússneskan milljarðamæring sem tengist rússneskum ráðamönnum um framgang bandarísku forsetakosninganna aðeins tveimur vikum áður en þær fóru fram.

Frá þessu greinir bandaríska dagblaðið Washington Post í dag. „Ef hann þarf á einkaútskýringum að halda þá get ég orðið við því,“ skrifaði Manafort í tölvupósti til tengiliðar milli hans og  auðkýfingsins Oleg Deripaska. Vitnar blaðið í heimildamenn sem þekkja vel til samskipta Manaforte.

Tölvupósturinn var meðal tugþúsunda skjala sem bandaríska alríkislögreglan FBI fékk afhent í tengslum við rannsókn Robert Muellers, sérstaks saksóknara í meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum.

Reuters-fréttastofan segir skrifstofu Muellers hafa neitað að tjá sig um frétt Washington Post. Jason Maloni, talsmaður Manafort, segir póstana hafa verið tilraun Manafort til að innheimta ógreiddar skuldir. Manafort sjálfur tjáði Washington Post að engir fundir hefðu átt sér stað og blaðið segir engar sannanir benda til þess að Deripaska hafi tekið boði Manafort eða að aðrir sambærilegir fundir hafi átt sér stað.

Rússar hafa alfarið neitað ásökunum um að þeir hafi haft afskipti af forsetakosningunum og Trump hefur sagt engin tengsl hafa verið milli framboðs síns og Rússa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert