Óttast að kosningaþreyta gagnist AfD

Angela Merkel Þýskalandskanslari stillir sér upp fyrir sjálfum með ungum …
Angela Merkel Þýskalandskanslari stillir sér upp fyrir sjálfum með ungum dreng á kosningafundi. AFP

Þjóðverjar ganga að kjörborðinu á sunnudag og óttast stjórnmálamenn nú að kosningaþreyta muni leiða til þess að hægriöfgaflokkurinn AfD muni bæta verulega við fylgi sitt. Angela Merkel, kanslari Þýskalands og helsti andstæðingur hennar Martin Schulz, hafa því snúið bökum saman á síðustu dögum kosningabaráttunnar og hvetja nú stuðningsmenn sína til að mæta á kjörstað að því er Reuters fréttastofan greinir frá.

Margir Þjóðverjar líta á það sem gefið að Merkel muni gegna embætti kanslara á næsta kjörtímabili, fjórða kjörtímabilið í röð. Litlaus kosningabarátta, sem hefur verið brotinn upp með stöku blóti og einum og einum tómat sem hefur verið hent í mótmælaskyni við stefnu Merkel í málefnum flóttamanna, vekur hins vegar ótta á að kjörsókn eigi eftir að verða léleg.

34% óákveðnir eða ætla ekki að kjósa

Samkvæmt skoðanakönnun GMS sem birt var í dag, þá eru 34% kjósenda enn óákveðnir, eða ætla ekki að mæta á kjörstað. Er það töluvert meiri fjöldi en þau 29% sem ekki kusu í síðustu sambandsþingkosningum árið 2013.

„Mín beiðni til allra er að þeir kjósi og að þeir kjósi þá flokka sem virða stjórnarskrá okkar 100%,“ sagði Merkel í viðtali við MDR útvarpsstöðina. Vísaði hún þar til AfD sem sumir fréttaskýrendur hafa líkt við nasista Hitlers. Sumir félagsmenn AfD hafa raunar hvatt til þess að Þjóðverjar endurskrifi þann hluta sögu landsins sem snýr að nasistatímanum.

Þó að skoðanakannanir sýni að Þjóðverjar treysti Merkel til að standa keik frammi fyrir óútreiknanlegum þjóðarleiðtogum á borð við Donald Trump Bandaríkjaforseta, Vladimír Pútín Rússlandsforseta og Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta, þá er alveg á huldu hvaða flokkar gætu skipað samsteypustjórn með flokki Merkel, Kristilega demókrataflokkinum.

Flestir vinstrimenn óakveðnir

Þá segja sérfræðingar í skoðanakönnunum að léleg kosningaþátttaka geti aukið fylgi AfD sem hefur aukið styrk sinn með því að einblína á öryggismál og innflytjendur. Talið er að flokkurinn geti orðið fyrsti hægriöfgaflokkurinn í meira en hálfa öld til að koma mönnum á sambandsþingið.

Nýjustu kannanir benda til þess að Kristilegir demókratar fái 37% atkvæða og Sósíaldemókratar 22%. Kosningasérfræðingurinn Renate Koecher sagði þýska dagblaðinu Die Zeit að kosningaþátttaka muni ákvarða úrslitin, en flestir þeirra sem enn eru óákveðnir flokka sig sem vinstrisinnaða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert