Sonurinn væri réttdræpur

Paolo Duterte, sonur Rodrigo Duterte.
Paolo Duterte, sonur Rodrigo Duterte. AFP

Forseti Filippseyja, Rodrigo Duterte, segir að hann muni láta drepa son sinn ef ásakanir um fíkniefnaviðskipti hans reynast á rökum reistar. Jafnframt verði lögreglumaðurinn sem tekur verkið að sér látinn njóta verndar gegn saksókn.

Paolo Duterte, sem er 42 ára, kom fyrir öldungadeildarþingsnefnd fyrr í mánuðinum þar sem hann neitaði að vera félagi í kínverskum glæpahóp sem smyglaði stórri sendingu af kristal metamfetamíni til Filippseyja frá Kína. 

Duterte forseti ítrekaði yfirlýsingar sínar frá því í kosningabaráttunni í fyrra þar sem hann hélt því fram að ekkert barna hans tengdist fíkniefnaviðskiptum en ef þau gerðu það þá biði þeirra þyngsta mögulega refsing.

„Ég hef sagt það áður að ef börn mín eru í fíkniefnum þá drepið þau svo fólk hafi ekkert til að tala um,“ sagði Duterte í ræðu í forsetahöllinni í gærkvöldi.

„Ég sagði við Pulong (gælunafn Paolo) ég hef fyrirskipað að þú verðir drepinn ef þú verður gripinn og ég mun vernda lögreglumanninn sem drepur þig. Það er heilagur sannleikur,“ bætti hann við.

Talið er að Duterte standi á bak við morð á um 10 þúsund fíkniefnasölum og fíklum en eitt helsta kosningaloforð hans var að beita sér af fullum þunga gegn fíkniefnaviðskiptum í landinu.

Frá því hann tók við sem forseti landsins er lögreglan talin hafa drepið 3.800 manns í stríði sínu gegn fíkniefnum á meðan þúsundir hafa verið drepnar við óútskýrðar aðstæður. Duterte hefur sagt sem forseti að hann myndi með glöðu geði slátra þremur milljónum fíkla og lýsti því að þau börn sem væru skotin til bana væru fórnarkostnaður.

Á sama tíma heldur hann því fram að hann hafi aldrei mælt með því við lögregluna að hún geri neitt ólöglegt og að það megi aðeins drepa í sjálfsvörn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert