Auðugasta kona heims látin

Liliane Bettencourt.
Liliane Bettencourt. AFP

Liliane Bettencourt, erfingi L'Oreal-snyrtivöruveldisins og ríkasta kona heims, er látin, 94 ára að aldri. Hún glímdi við heilabilun síðustu ár og var að mestu utan kastljóss fjölmiðla undir það síðasta eftir harðvítugar deilur fyrir rétti í svonefndu Bettencourt-dómsmáli.

Bettencourt, sem lést á miðvikudagskvöldið, var helsti hluthafinn í stærsta snyrtivörufyrirtæki heims, L'Oreal. Persónulegar eignir hennar eru metnar á 39,5 milljarða Bandaríkjadala í Forbes-tímaritinu frá því í mars.

„Liliane Bettencourt lést í gærkvöldi á heimili sínu,“ segir í tilkynningu frá dóttur hennar, Françoise Bettencourt Meyers.

Liliane Bettencourt
Liliane Bettencourt AFP

Bettencourt sást afar sjaldan opinberlega eftir að hún hætti í stjórn L'Oreal árið 2012 en nafn hennar lifði áfram í fjölmiðlum vegna þess að ættingjar hennar gerðu læknaskýrslur opinberar þar sem fram kom að hún hefði glímt við margvíslega heilabilunarsjúkdóma frá árinu 2006. Hún var árið 2011 svipt rétti yfir eigin málefnum á grundvelli þess sem kom fram í læknaskýrslum.

Árið 2007 höfðaði Françoise Bettencourt Meyers mál gegn ljósmyndaranum François-Marie Banier þar sem hún sakaði hann um að hafa nýtt sér veikleika móður sinnar til að hafa af henni stórfé.

AFP

Árið 1987 lágu leiðir Liliane og François-Maries saman, en hann var fenginn til að ljósmynda hana fyrir franska tímaritið Egoiste. Jós Liliane ljósmyndarann gjöfum næstu tvo áratugina og er talið að vinskapurinn hafi gert François-Marie um 1,3 milljörðum evra ríkari.

Bettencourt-dómsmálið skók franskt samfélag og var á allra vörum allt til ársins 2015 þegar François-Marie var dæmdur til þriggja ára fangelsisvistar og gert að greiða Bettencourt-fjölskyldunni 15 milljónir evra.

Andre Bettencourt er fyrir miðju á myndinni við hlið eiginkonu …
Andre Bettencourt er fyrir miðju á myndinni við hlið eiginkonu sinnar Liliane Bettencour. AFP

Í grein sem birt var í Sunnudagsmogganum árið 2010 er fjallað um L'Oreal-erfingjann sem nú er látinn.

Liliane Bettencourt er fædd í París árið 1922 og er því 88 ára að aldri. Hún er einkabarn Eugène Schueller, stofnanda L'Oreal-veldisins, en fyrirtækið er einn stærsti framleiðandi snyrtivöru í heiminum. Móðir Liliane lést árið 1927 og voru Liliane og faðir hennar afar náin alla tíð en ólíkt því sem gerist í mörgum ævintýrum kvæntist hann aldrei aftur. Liliane hóf störf í fjölskyldufyrirtækinu fimmtán ára gömul. Árið 1950 giftist hún franska stjórnmálamanninum André Bettencourt en hann var liðsmaður fasistahreyfingar, La Cagoule, sem faðir Liliane studdi fjárhagslega. La Cagoule studdi meðal annars framgang nasistahreyfingarinnar og studdi hana með ráðum og dáð í seinni heimsstyrjöldinni. Í stríðslok réð Schueller hann til starfa hjá L'Oreal líkt og marga aðra liðsmenn Cagoule. Hann varð síðar varaformaður stjórnar L'Oreal en árið 1957, er Eugène Schueller lést, erfði Liliane L'Oreal-fyrirtækið af föður sínum.

Liliane og André settust að í Neuilly-sur-Seine árið 1951 og eignuðust sitt eina barn, Françoise, árið 1953.

Greinin birtist 12. desember 2010

„Erfingi L'Oreal-auðsins, ekkjan Liliane Bettencourt, og dóttir hennar Francoise Bettencourt-Meyers sömdu frið fyrr í vikunni og bundu þar með enda á deilur sem hafa hrist hressilega upp í mörgum Frakkanum undanfarin misseri. Enda engir smáaurar sem deilt var um. Líkt og oft gerist í skáldsögum snýst deilan um ástir og auð en einnig völd. Því þrátt fyrir að þær mæðgur hafi fallist í faðma á eftir að koma í ljós hvaða áhrif deila þeirra hefur á stjórnmálaflokk forseta Frakklands, Nicolas Sarkozys, og möguleika hans á endurkjöri árið 2012.

Í upphafi snerist deilan um að Bettencourt-Meyers vildi fá móður sína, ríkustu konu Frakklands, dæmda ófæra um að annast eigin fjármál og þar með fara með fjölskylduauðinn, 17 milljarða evra, 2.590 milljarða króna. Ástæðan fyrir beiðninni er sú að henni stóð ekki á sama um gjafmildi móður sinnar í garð rithöfundarins og ljósmyndarans François-Maries Baniers.

Miklir kærleikar mynduðust milli Lilian Bettencourt og Banier eftir að hann myndaði hana fyrir franska tímaritið Egoiste árið 1987 og er talið að hún hafi gefið honum gjafir sem metnar eru á 1,3 milljarða evra, tæpa 200 milljarða króna. Nokkrum mánuðum eftir fráfall eiginmanns Bettencourt árið 2007 lagði Françoise fram kvörtun gagnvart Banier. Sagði hún hann nýta sér bágt andlegt ástand móður sinnar til þess að hafa af henni fé. Hafa deilur þeirra mæðgna tekið verulega á og ýmsum sprengjum varpað á báða bóga.

Í sumar voru birtar upptökur sem bryti Bettencourt hafði tekið upp. Þar var meðal annars að finna samræður milli Bettencourt og fjármálaráðgjafa hennar um hvernig hægt væri að skjóta fjármunum undan skatti með því að geyma hluta auðæfanna á svissneskum leynireikningum. Eins hafði brytinn tekið upp samtal milli Bettencourt og Éric Wœrth, sem var fjármálaráðherra og gjaldkeri UMP-flokksins, flokks Sarkozys, þar sem hann er að falast eftir því að Bettencourt ráði eiginkonu hans í vinnu. Á þessum tíma var fjármálaráðuneytið franska að rannsaka skattaundanskot franskra auðkýfinga en svo vill til að Bettencourt slapp í gegnum nálarauga rannsóknarinnar. Eiginkona ráðherrans fékk vinnu hjá ekkjunni á svipuðum tíma.

Síðastliðið sumar greindi endurskoðandi Bettencourt, Claire Thibout, frá því að hún hefði reglulega dregið upp veskið þegar franskir hægrimenn voru annars vegar. Meðal annars hefði Sarkozy tekið á móti umslögum með peningagjöfum. Sarkozy og Wœrth neituðu þessum ásökunum og segja skattayfirvöld að það sé ekki rétt að ráðherrann hafi aðstoðað Bettencourt. Hins vegar varð Wœrth að taka pokann sinn í síðasta mánuði er Sarkozy tók til á stjórnarheimilinu.

Eins og áður sagði sættust þær mæðgur fyrr í vikunni og segir í yfirlýsingu Bettencourt að samkomulagið veki hjá henni von um að fjölskyldan sameinist á ný og takist á við framtíðina saman.

Unnið hefur verið leynt og ljóst að því að reyna að sætta fjölskylduna í talsverðan tíma. Til að mynda sleit Bettencourt öllu sambandi við Banier í ágúst og er hann nú hvergi nefndur í erfðaskrá hennar en hann var aðalerfingi hennar samkvæmt erfðaskrá sem hún gerði árið 2007. Jafnframt hafa eiginmaður Bettencourt-Meyers, Jean-Pierre Meyers, og börn þeirra hjóna fengið aukinn frama hjá L'Oreal-fyrirtækinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert