Stífla brestur á Púertó Ríkó eftir fellibylinn

Veruleg hætta fylgir flóðum sem komu eftir að stífla brast á Púertó Ríkó nú í kvöld í kjölfar þess að fellibylurinn María fór yfir eyjuna í gær. Segir BBC flóðahættuna við ána Guajataca vera verulega og er nú unnið að því að flytja fólk á brott frá svæðinu eins hratt og unnt er.

María hefur kostað 13 manns hið minnsta lífið á Púertó Ríkó, en fellibylurinn olli mikilli eyðileggingu á eyjunni og eru þær 3,5 milljónir sem þar búa enn án rafmagns. Talið er að það muni taka mánuði áður en rafmagn verður komið á að fullu aftur.

Ricardo Rossello, ríkisstjóri Púertó Ríkó, segir fellibylinn vera þann versta í heila öld. Starfsmenn Guajataca-stíflunnar sem er í norðvesturhluta Púertó Ríkó segja hana hafa gefið sig um tvöleytið að staðartíma, eða sjöunda tímanum í kvöld samkvæmt íslenskum tíma.

Samstundis var gefin út viðvörun við skyndiflóðum í nágrannahéruðunum og eru íbúar hvattir til að koma sér upp í næstu hlíðar.

„Þetta eru einstaklega hættulegar, lífshættulegar aðstæður. Reynið ekki að ferðast nema þið séuð að flýja svæði sem þar sem hætta er á flóðum eða sem fólki hefur verið skipað að yfirgefa,“ sagði í viðvörun veðurstofu Púertó Ríkó.

María er nú þriðja stigs fellibylur og er á leið frá eyjunum Turks & Caicos og er talið að hún fari austur fyrir Bahama-eyjar um helgina.

Vitað er til að María hafi til þessa kostað 30 manns lífið, þar af 15 manns á eyjunni Dóminíku, en 20 manns til viðbótar er enn saknað þar, að sögn forsætisráðherrans Roosevelt Skerrit. „Þetta hefur verið hræðilegt,“ sagði hann. „Ég hef aldrei séð aðra eins eyðileggingu.“

Íbúar San Juan, höfuðborgar Púertó Ríkó, vaða flóðavatn á götum …
Íbúar San Juan, höfuðborgar Púertó Ríkó, vaða flóðavatn á götum borgarinnar eftir að fellibylurinn María fór þar yfir. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert