Vonin að fjara út

Vonin er að fjara út um að fleiri eigi eftir að finnast á lífi í húsarústum í Mexíkó eftir jarðskjálftann á þriðjudag. Yfirvöld hafa staðfest 272 dauðsföll en segja töluna eiga eftir að hækka. Enn er yfir 200 saknað í Mexíkóborg.

Sjálfboðaliðar hafa unnið þrotlaust við hreinsunarstarfið síðan skjálfti sem mældist 7,1 stig reið yfir Mexíkóborg og nágrenni. Tonn af braki hafa verið fjarlægð úr rústum tuga bygginga í höfuðborginni og í ríkjum í Mið-Mexíkó. Sérfræðingar segja að lífslíkur við aðstæður sem þessar séu yfirleitt um 72 klukkustundir en það fer eftir því hversu alvarlega slasað fólk er. 

Í Roma-hverfinu í höfuðborginni hafa leitarflokkar reynt að staðsetja 23 manneskjur sem taldar eru vera undir rústum sjö hæða skrifstofubyggingar sem hrundi í skjálftanum. Þegar hefur 28 verið bjargað út úr rústunum en enginn hefur fundist látinn þar enn sem komið er. Ættingjar þeirra sem enn eru undir rústunum bíða milli vonar og ótta eftir fréttum. 

Systir Aarons Flores, Karen, og vinur hans, Paulino Estrada, eru bæði föst undir rústunum. Estrada náði sambandi við fjölskyldu sína með farsíma og náði jafnvel að taka samtalið upp á mynd. En ekkert hefur frést af Karen Flores. „Við erum örvæntingarfull þar sem við höfum ekkert heyrt frá henni,“ segir bróðir hennar. 

Sorg ríkir á öðrum stöðum í borginni. „Klukkan 13 náðu þeir líki móður minnar úr brakinu en töldu að um aðra konu væri að ræða,“ sagði Dolores Martinez, 38 ára, við fréttamann AFP við líkhúsið.

Samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum eru 137 látnir í Mexíkóborg, 73 í Morelos-ríki, 43 í Puebla, 13 í Mexíkó-ríki, fimm í Guerrero og einn í Oaxaca.

Ein saga heltók fréttaheiminn í gær en það var frásögn af 13 ára stúlku sem átti að vera á lífi undir rústum grunnskóla í Mexíkóborg. Yfirvöld segja að ekkert sé hæft í sögunni og farið hafi verið yfir lista yfir nemendur skólans. Í ljós kom að vitað er um öll börnin; annaðhvort eru þau örugg heima eða því miður látin, segir einn þeirra sem stýra samskiptum við fréttamenn við skólann.

Jafnvel er búist við að einhverjir fullorðnir séu enn á lífi í rústunum þar sem myndir eru til af blóðslóð sem getur bent til þess að einhver geti verið enn á lífi.

Áður höfðu björgunarsveitarmenn sagt fréttamönnum að þeir væru vissir um að stúlka væri föst undir rústunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert