Stjórnmálaritstjórinn þarf lífvörð vegna áreitis

Kuenssberg hefur verið sökuð um hlutdrægni í umfjöllunum sínum.
Kuenssberg hefur verið sökuð um hlutdrægni í umfjöllunum sínum. AFP

Laura Kuenssberg, ritstjóri stjórnmálaumfjöllunar hjá BBC, mætti á landsfund breska Verkamannaflokksins, sem nú stendur yfir, í fylgd lífvarðar, eftir að hafa verið sökuð um hlutdrægni í garð Íhaldsflokksins, sem fer með völdin í Bretlandi. Times greinir frá þessu.

Kuenssberg sást í fylgd með sköllóttum karlmanni á landsfundinum sem blaðið bar kennsl á og segir vera fyrrverandi hermann sem BBC hafi ráðið til að vernda hana fyrir hugsanlegu áreiti.

Kuenssberg er fyrsta konan til að gegna stöðu stjórnmálaritstjóra hjá BBC og hefur hún orðið fyrir miklu kynbundu áreiti frá því hún tók við starfinu. Þá er reglulega ráðist að henni í umfjöllun á hinum ýmsu pólitísku vefsíðum, eins og The Canary, sem styður Jeremy Corbyn, formann Verkamannaflokksins. Á síðasta ári var svo sett af stað undirskriftarsöfnun þar sem yfirmenn hennar voru hvattir til að reka hana. 35 þúsund manns skrifuðu undir áður en vefsíðan var tekin niður.

Það eru hins vegar ekki bara stuðningsmenn Verkamannaflokksins sem saka hana um hlutdrægni, heldur hafa félagar í Íhaldsflokki Theresu May og og breski Sjálfstæðisflokkurinn einnig gert það.

Talsmaður BBC sagði við AFP-fréttastofuna að þeir ætluðu ekki að ræða öryggismál starfsmanna sinna í fjölmiðlum.

Innanbúðarmaður hjá BBC sagði hins vegar í samtali við dagblaðið Sun að öryggi starfsmanna væri í hávegum haft hjá fréttastöðinni. „Laura er þekkt andlit. Hún og hennar teymi þurfa að fjalla um stóra viðburði sótta af fjölda manns þar sem þau gætu mætt fjandsamlegu viðmóti, þannig við gerum allar viðeigandi öryggisráðstafanir,“ sagði innanbúðarmaðurinn jafnframt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert