„Við erum sultuslök“

Vilborg ásamt göngufélögum sínum þegar hún gekk upp á topp …
Vilborg ásamt göngufélögum sínum þegar hún gekk upp á topp eldfjallsins Agung fyrir tveimur árum. Ljósmynd/Vilborg Halldórsdóttir

„Það er engin hræðsla hjá fólki. Við erum langt frá fjallinu,“ segir Vilborg Halldórsdóttir fararstjóri, sem er stödd á Balí ásamt hópi Íslendinga á vegum ferðaskrifstofunnar Farvel.

Hæsta viðbúnaðarstigi hefur verið lýst yfir á hluta eyjunnar vegna jarðhræringa og virkni eldfjallsins Agung. Mik­il virkni hef­ur verið í fjall­inu síðan í ág­úst og stöðugir smærri jarðskjálft­ar hafa mælst. Skjálftun­um hef­ur nú fækkað en þeir orðið dýpri og öfl­ugri.

Mik­il virkni hef­ur verið í eldfjallinu Agung síðan í ág­úst.
Mik­il virkni hef­ur verið í eldfjallinu Agung síðan í ág­úst. AFP

Vilborg er stödd ásamt hópi Íslendinga í Sanur, strandbæ á austanverðri eyjunni, sem er í um það bil 75 kílómetra fjarlægð frá eldfjallinu. Yfirvöld hafa hvatt fólk til að vera í að minnsta kosti 12 kíló­metra fjar­lægð frá fjall­inu. Tæp­lega 50 þúsund íbú­ar á Balí hafa verið flutt­ir á brott af heim­il­um sínum. 

Frétt mbl.is: Íbúar fluttir á brott á Balí

Vilborg hefur verið á Balí frá því um miðjan september og hefur hún orðið vör við stigmagnandi viðvaranir vegna mögulegs eldgoss. Hún segir fólk hins vegar taka lífinu með ró, enda séu þau í öruggri fjarlægð frá fjallinu, enn sem komið er. „Fólk er ekkert að stressa sig hérna.“ Ef að því kemur að viðbúnaðarstigið nái til Sanur er Vilborg sannfærð um að allt muni ganga vel og að hún treysti yfirvöldum. „Við munum bara fara að fyrirmælum yfirvalda.“

Vilborg þekkir eldfjallið afar vel, en hún gekk upp á topp þess fyrir tveimur árum. „Agung er hið heilaga fjall þeirra Balíbúa. Hann, Agung, rís formfallegur 3.142 metra upp eins og pýramídi.“

Vilborg segir það hafa verið magnaða upplifun að sjá sólina …
Vilborg segir það hafa verið magnaða upplifun að sjá sólina koma upp þegar hún var stödd á toppi Agung. Ljósmynd/Vilborg Halldórsdóttir

Vilborg segir það magnaða upplifun að ganga á topp Agung. „Það var það erfiðasta sem ég hef gert af því að það er svo grýtt og bratt, það var bara eins og ég væri að klifra til himna. Maður byrjar í þúsund metra hæð og gengur upp tvö þúsund metra mjög hratt og bratt.“ Vilborg segir það hafa verið allt þess virði þegar hún upplifði að sjá sólina koma upp á toppi fjallsins. „En það var erfiðast að fara niður. Ég var ekki lofthrædd, en þetta reynir svo á líkamann.“

Fjöldi bænastytta prýða topp eldfjallsins Agung, sem Balíbúar kalla gjarnan …
Fjöldi bænastytta prýða topp eldfjallsins Agung, sem Balíbúar kalla gjarnan hið heilaga fjall. Ljósmynd/Vilborg Halldórsdóttir

Vilborg mun fylgjast vel með fregnum af Agung næstu daga, en hún mun fyrst og fremst halda áfram að njóta lífsins í þeirri paradís sem Balí er. „Við erum sultuslök.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert