Stór- en aðeins áfangasigur

Skjáskot úr myndskeiði sem aðgerðarsinnar deildu á YouTube árið 2013.
Skjáskot úr myndskeiði sem aðgerðarsinnar deildu á YouTube árið 2013. AFP

„Ég trúði þessu ekki. Ég byrjaði að hlæja og hoppa og öskra. Þetta er stór sigur,“ sagði aðgerðasinninn Sahar Nassif í samtali við BBC um þá ákvörðun Salman, konungs Sádi-Arabíu, að heimila konum að aka. „Ég ætla að kaupa draumabílinn; Mustang blæjubíl, og hann verður svartur og gulur!“

Konungsríkið er eina ríki heims þar sem konum hefur verið bannað að keyra. Aðeins karlmenn hafa getað fengið ökuskírteini og geta þær konur sem staðnar eru að akstri átt yfir höfði sér að vera handteknar og sektaðar.

„Þetta er stór sigur fyrir margar sádiarabískar konur,“ sagði Latifah Alshaalan, fulltrúi Shura-ráðsins sem leiðbeinir ríkisstjórninni, í samtali við Al Arabiya. Sagði hún um að ræða baráttumál ekki bara til margra ára, heldur margra áratuga.

Hin konunglega tilskipun tekur gildi 24. júní 2018 en Khaled bin Salman, sendiherra Sádi-Arabíu í Bandaríkjunum, hefur staðfest að þær konur sem kjósa að læra að aka muni ekki þurfa að leita samþykkis karlmanns og muni geta keyrt hvar sem er.

Ákvörðuninni hefur verið fagnað af stjórnvöldum vestanhafs og Antonio Guterres, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Þá sagði Manal al-Sharif, einn skipuleggjenda Women2Drive-hreyfingarinnar, að Sádi-Arabía yrði aldrei söm. „Regnið hefst með einum dropa,“ tísti hún.

Samkvæmt BBC hafa um 800.000 menn atvinnu af því að …
Samkvæmt BBC hafa um 800.000 menn atvinnu af því að aka konum um. AFP

Þess ber hins vegar að geta að á sama tíma og konur hófu að tísta undir myllumerkjunum #égerminneiginforráðamaður og #sádiarabískarkonurgetaekið, náði myllumerkið #konurímínuhúsimunuekkiaka einnig útbreiðslu. Um er að ræða þýðingar en tístin eru flest á arabísku.

Samkvæmt BBC hafa um 800.000 einkabílstjórar haft það að atvinnu að aka konum. Bannið megi rekja til trúaðra íhaldsmanna, sem hafi m.a. haldið því fram að konur væru of heimskar til að aka eða að ökuréttindi til handa konum myndu leiða til óásættanlegs samgangs kynjanna.

Sæta enn mikilli mismunun

Þrátt fyrir þennan mikilvæga áfanga sæta sádiarabískar konur enn mikilli mismunun. Það sem einna helst hamlar frelsi þeirra er svokallað forráðamannsfyrirkomulag, sem kveður á um að þær verða að fá heimild hjá einhverjum karlkyns úr fjölskyldunni áður en þær geta tekið bæði mikilvægar og hversdagslegar ákvarðanir um eigið líf.

Þetta getur þýtt að kona þurfi að biðja yngri bróður sinn um leyfi til að gangast undir aðgerð eða ferðast til útlanda.

Konur sæta enn verulegri mismunun í Sádi-Arabíu og eru háðar …
Konur sæta enn verulegri mismunun í Sádi-Arabíu og eru háðar duttlungum karlmanna um bæði mikilvægar og hversdagslegar ákvarðanir. AFP

Konur mega venjulega ekki umgangast karlmenn utan fjölskyldu sinnar og geta átt yfir höfði sér fangelsisdóm vegna slíks brots. Þá geta „forráðamenn“ þeirra valið að undirrita ekki lausnarpappíra fyrir þær þegar þær hafa lokið afplánun og í raun látið þær daga uppi í hinu opinbera kerfi.

Trúarleg stjórnvöld í Sádi-Arabíu hafa einnig takmarkað rétt kvenna til að velja sér maka og bannað súnníkonum að giftast sjítum eða trúlausum. Í sumum tilvikum hafa konur fengið rétt til að taka ákvarðanir um sækja sér ákveðna þjónustu en sá réttur er þó alltaf háður túlkun á trúarlegum lögum.

Þá er þess krafist að konur klæðist kuflum og höfuðklútum en yfirvöld ganga mislangt í því að fylgja reglunum eftir. Í Riyadh er t.d. fátítt að sjá í andlit konu úti á götu en annars staðar geta þær verið frjálslegri til fara.

Sömu kröfur um klæðaburð eru ekki gerðar til erlendra kvenna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert