Handtekinn fyrir að eitra barnamat

Þýskir lögreglumenn að störfum.
Þýskir lögreglumenn að störfum. AFP

Lögreglan í Þýskalandi hefur handtekið mann sem grunaður er um að hafa eitrað matvæli fyrir börn og fullorðna í þeirri von að geta kúgað milljónir evra út úr matvöruverslunum.

Segir BBC manninn hafa verið hnepptan í varðhald á föstudagskvöld í Tübingen suður af Stuttgart. Áður hafði lögregla birt myndir af manninum úr eftirlitsmyndavélum í stórverslun nærri Konstanz.

Verslunareigendur víða í Evrópu fengu hótunarbréf fyrr í þessum mánuði, þar sem þeim var hótað að matvæli yrðu eitruð, nema bréfritari fengi 11,7 milljónir evra greiddar.

Lögregla lagði í kjölfarið hald á nokkrar krukkur af barnamat sem frostlegi hafði verið blandað saman við. Frostlögurinn var bæði lyktar- og litarlaus, en hefur sætt bragð sem börn kunna að meta.

Ekki er vitað til þess að neinum hafi orðið meint af.

Það var eftir ábendingar frá almenningi sem maðurinn var handtekinn og segir AFP-fréttastofan að hann hafi játað að hafa eitrað barnamat og að hafa hótað að eitra fleiri matvæli.

Maðurinn er sagður eiga við geðræn vandamál að stríða, en ekki liggur fyrir hvort hann er sá sami og sést á myndunum úr eftirlitsmyndavélunum.

Eru neytendur hvattir af yfirvöldum til að vera á varðbergi gagnvart matvælaumbúðum sem kann að hafa verið átt við, en yfirvöld hafa ekki gefið upp hvaða matvöruverslunum hótanirnar beindust gegn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert