Árásarmaðurinn í Marseille gekk undir sjö nöfnum

Maðurinn sem stakk tvær ungar konur til bana á aðalbrautarstöðinni í Marseille í gær var handtekinn nokkrum dögum áður af lögreglu. Maðurinn hefur ítrekað komist í kast við lögin og gekk undir sjö ólíkum nöfnum. 

Samkvæmt upplýsingum frá saksóknara hefur maðurinn meðal annars notað túnískt vegabréf þar sem hann heitir Ahmed H. og er 29 ára. Hann var skotinn til bana af lögreglu á brautarstöðinni en vígasamtökin Ríki íslams segja að hann hafi verið hermaður samtakanna.

Aftur á móti hefur það ekki fengist staðfest hjá þeim sem stýra rannsókninni og heimildir AFP herma að ekkert bendi til þess að hann hafi verið liðsmaður Ríkis íslams. Maðurinn stakk ungu konurnar, rúmlega tvítugar frænkur frá Lyon, ítrekað. Önnur þeirra var búsett í Marseille þar sem hún var við nám og hin var í heimsókn hjá henni um helgina.

Saksóknari segir að vitni hafi heyrt árásarmanninn kalla Allahu Akbar (Guð er mikill á arabísku) þegar hann stakk ungu konurnar til bana. Fingraför hans sýna fram á að hann hefur hlotið sjö dóma frá árinu 2005 en hann var handtekinn í Lyon í síðustu viku fyrir þjófnað. Hann sýndi lögreglu vegabréf frá Túnis, sagðist vera fráskilinn, hann væri fíkill og heimilislaus. Vegna skorts á sönnunargögnum var maðurinn látinn laus án ákæru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert