Vill nýtt samkomulag við stjórnvöld

Forseti Katalóníu, Carles Puigdemont vill stofna til nýs samkomulags við …
Forseti Katalóníu, Carles Puigdemont vill stofna til nýs samkomulags við yfirvöld í Madrid. AFP

Forseti Katalóníu, Carles Puigdemont, segist ekki vera að skipuleggja „skelfilegan aðskilnað“ við Spán í kjölfar niðurstöðu kosninganna í gær þar sem 90% kjósenda greiddu atkvæði með því að Katalónía lýsi yfir sjálfstæði. BBC greinir frá því að með niðurstöðu kosninganna vilji Puigdemont stofna til nýs samkomulags við yfirvöld í Madrid. 

Hæstiréttur Spánar hefur dæmt kosningarnar ólöglegar. Kosn­ing­in olli mikl­um átök­um milli kjós­enda og lög­reglu sem reyndi að koma í veg fyr­ir kosn­ing­una með að loka kjör­stöðum. Um 900 manns slösuðust í átökunum og hafa yfirvöld á Spáni verið harðlega gagnrýnd fyrir framgöngu spænsku óeirðarlögreglunnar. For­sæt­is­ráðherra Spán­ar, Mariano Rajoy, seg­ir að óeirðarlögreglan hafi ein­ung­is verið að sinna skyld­um sín­um og að öll­um lög­um hafi verið fram­fylgt í aðgerðum lög­reglu.

Puigdemont lýsti því yfir á blaðamannafundi fyrr í dag að hann ætli að setja saman nefnd sem muni rannsaka allt ofbeldi sem fram fór í gær og að gripið verði til lögmætra aðgerða gegn lögreglunni á Spáni.  

Puigdemont greindi einnig frá því á fundinum að hann hafi ekki átt í neinum samskiptum við ríkisstjórn Spánar eftir að niðurstaða kosninganna lá fyrir. Rajoy hefur lýst kosningunum sem athlægi að lýðræði í landinu og að Katalónar hafi verið blekktir til að taka þátt í ólögmætum kosningum.

Rajoy fundar nú í Madrid með Pedro Sanchez, leiðtoga Sósíalistaflokksins, stærsta stjórnarandstöðuflokksins á Spáni og  Albert Rivera, leiðtoga miðflokksins, Ciudadanos. Á sama tíma fundar Puigdemont með ríkisstjórn sinni í Barcelona.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert