24% styðja skilyrðislaust meðgöngurof

„Erfiðasta ákvörðunin sem kona þarf að taka... er ekki ykkar,“ …
„Erfiðasta ákvörðunin sem kona þarf að taka... er ekki ykkar,“ sagði m.a. á mótmælaspjöldum í kröfugöngu aðgerðasinna í Dublin síðustu helgi. AFP

Aðeins 24% írskra kjósenda styðja skilyrðislausan rétt kvenna til meðgöngurofs fram að 22. viku meðgöngu. Til stendur að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar á löggjöf landsins um meðgöngurof, eða fóstureyðingar, á næsta ári.

Samkvæmt skoðanakönnun Irish Times og Ipsos MRBI eru 57% kjósenda fylgjandi því að heimila meðgöngurof í þeim tilvikum þegar um er að ræða naugðun, banvæna fósturgalla eða ógn við líf konunnar.

Mikill meirihluti, 70%, er fylgjandi því að endurskoða áttunda viðauka írsku stjórnarskrárinnar, þar sem kveðið er á um jafnan rétt fóstursins og hinnar óléttu konu.

Aðgerðasinnar segja viðaukann fjötur um fót heilbrigðisstarfsfólks sem stendur frammi fyrir því að framkvæma meðgöngurof undir núgildandi lögum en samkvæmt þeim má rjúfa meðgöngu ef líf konunnar er talið í hættu eða hún talin í sjálfsvígshættu tilneydd til að eiga barnið.

Árið 2014 var kona, sem var nauðgað í heimalandi sínu, neydd til að fæða barn með keisaraskurði á írskum spítala eftir að hafa verið neitað um meðgöngurof. Konan sótti um á þeim forsendum að hún væri líkleg til að fremja sjálfsvíg ef hún yrði neydd til að ganga með barnið.

Um var að ræða fyrsta málið þar sem reyndi á umrædd lög en gagnrýnendur þeirra segja raunina þá að lögin hafi ekki haft nokkurt gagn né gildi þegar á hólminn var komið.

Margir hafa kallað eftir róttækum breytingum á fóstureyðingalöggjöf landsins og því að hún verði áþekk löggjöfinni í Bretlandi, þangað sem margar írskar konur leita þegar þær koma að lokuðum dyrum í heimalandinu.

Forsætisráðherrann Leo Varadkar tilkynnti í síðasta mánuði að gengið yrði til þjóðaatkvæðagreiðslu um viðauka átta á næsta ári en sagði Írland ekki reiðubúið fyrir „fóstureyðingar eftir eftirspurn.“

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert