Barnaníðingavefsíða starfrækt af lögreglu

Vefsíðan var hluti af háleynilegri aðgerð gegn barnaníði.
Vefsíðan var hluti af háleynilegri aðgerð gegn barnaníði. mbl.is/Golli

Ein stærsta barnaníðingavefsíða heims, Childs Play, var starfrækt af lögreglunni í Ástralíu í næstum því heilt ár. Norski fréttamiðillinn Verdens Gang hafði fylgst með vefsíðunni svo mánuðum skipti áður en rannsóknin leiddi þá til lögreglunnar, en í ljós kom að vefsíðan var hluti af háleynilegri aðgerð gegn barnaníði og hafði leitt til fjölda handtakna víða um heim.

Teymið sem starfrækti síðuna fyrir hönd áströlsku lögreglunnar kallar sig Task Force Argo, en verkefnið, sem ber heitið Artemis-aðgerðin, var unnið í alþjóðlegu samstarfi við yfirvöld í löndum Evrópu, Kanada og Bandaríkjanna með það að markmiði að afhjúpa leiðtoga stærstu barnaníðssamfélaga heims.

Fréttastofa VG spyr þó hversu langt lögreglan geti gengið í leitinni að réttlætinu, en þúsundum myndbanda og mynda af barnaníði var deilt á síðunni á meðan hún var í umsjá lögregluyfirvalda. Lögreglan neitar hins vegar að hún beri ábyrgð á því sem deilt var á síðunni á þessu tæpa ári sem hún hafði yfirumsjón með vefsíðunni.

Vefsíðunni var lokað í síðasta mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert