Skoða alla möguleika

Forsætisráðherra Spánar, Mariano Rajoy, er að skoða alla möguleika varðandi Katalóníu en boðaði til neyðarfundar hjá ríkisstjórn landsins í morgun.

Carles Puigdemont, forseti héraðsstjórnar Katalóníu, flutti ræðu á katalónska þinginu síðdegis í gær og lagði til að það frestaði yfirlýsingu um sjálfstæði héraðsins eftir umdeilda atkvæðagreiðslu um aðskilnað frá Spáni 1. október. Hann kvaðst ætla að fara eftir niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar en reyna fyrst til þrautar að leysa deiluna með viðræðum við spænsk stjórnvöld sem segja að atkvæðagreiðslan sé brot á ákvæði stjórnarskrár Spánar um órjúfanlega einingu landsins. Ráðamennirnir á Spáni hafa sagt að ekki komi til greina að semja um sjálfstæði Katalóníu.

Tæp 90% þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni studdu sjálfstæði. Kjörsóknin var rúm 42% og margir katalónskir andstæðingar aðskilnaðar frá Spáni sniðgengu atkvæðagreiðsluna eftir að stjórnlagadómstóll landsins úrskurðaði að hún væri brot á stjórnarskránni.

Puigdemont sagði að í atkvæðagreiðslunni hefði katalónska þingið fengið „umboð þjóðarinnar“ til að lýsa yfir sjálfstæði Katalóníu en lagði til að þingið frestaði yfirlýsingu um sjálfstæði til að greiða fyrir samningaviðræðum um málið á næstu vikum. Hann gagnrýndi einnig harkalegar lögregluaðgerðir sem spænsk stjórnvöld fyrirskipuðu til að hindra atkvæðagreiðsluna. Hann viðurkenndi einnig að ágreiningur væri um málið meðal Katalóna og sagði að nauðsynlegt væri að draga úr spennunni til að koma í veg fyrir að deilan leiddi til átaka. „Við erum öll hluti af sama samfélagi og þurfum að halda fram á við saman. Eina leiðin fram á við er lýðræði og friður.“

Blendin viðbrögð

Fyrstu viðbrögð katalónskra sjálfstæðissinna við ræðunni voru blendin. Sumir þeirra sögðust hafa viljað að lýst yrði yfir sjálfstæði Katalóníu á þingfundinum en aðrir voru sáttir við það að yfirlýsingunni var frestað. Vinstrisinnaðir aðskilnaðarsinnar á þinginu gagnrýndu ræðu Puigdemonts og sögðu að það hefði líklega misst af sögulegu tækifæri til að lýsa yfir tafarlausu sjálfstæði.

Spænsk yfirvöld höfðu sent fjölmennt lið lögreglumanna að þinghúsinu í Barcelona vegna möguleikans á að þingið lýsti yfir sjálfstæði. Almenningsgarði við þinghúsið var einnig lokað til að koma í veg fyrir mótmæli.

Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, hefur sagt að hann ætli að gera allt sem í valdi hans standi til að koma í veg fyrir að Katalónía verði sjálfstætt ríki. Hann hefur jafnvel sagt að til greina komi að svipta héraðið sjálfstjórnarréttindum sínum og leysa héraðsstjórnina upp.

Fyrir ræðu Puigdemonts í gær hafði borgarstjóri Barcelona, Ada Colau, hvatt þingið til að lýsa ekki yfir sjálfstæði héraðsins án samkomulags við spænsk stjórnvöld. Nokkur stórfyrirtæki eru með höfuðstöðvar í Barcelona og sum þeirra hafa þegar ákveðið að flytja höfuðstöðvarnar til annarra héraða vegna sjálfstæðisstefnu héraðsstjórnarinnar, þeirra á meðal er þriðji stærsti banki Spánar, CaixaBank, orkurisinn Gas Natural og símafyrirtækið Cellnex.

Viðurkennir ekki atkvæðagreiðsluna

Leiðtogar aðskilnaðarsinna vilja að sjálfstæð Katalónía verði áfram í Evrópusambandinu. Framkvæmdastjórn þess í Brussel hefur hins vegar sagt að ef Katalónía lýsi yfir sjálfstæði verði landið utan ESB og þurfi að sækja um aðild að sambandinu. Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnarinnar, hefur sagt að hún myndi ekki viðurkenna atkvæðagreiðslu um sjálfstæði Katalóníu nema hún samræmdist stjórnarskrá Spánar. „ESB-ríkin viðurkenna ekki Katalóníu sem sjálfstætt ríki ef stofnun þess brýtur í bága við lög og þá sérstaklega spænsku stjórnarskrána,“ hefur fréttaveitan AFP eftir Jean-Claude Piris, sérfræðingi í Evrópurétti.

Afstaða framkvæmdastjórnarinnar byggist á túlkun hennar á sáttmálum Evrópusambandsins, en fram hafa komið efasemdir um þá túlkun vegna þess að í sáttmálunum er ekki tekið skýrt fram hvað gerist ef hérað í aðildarríki lýsir yfir sjálfstæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert